Hjólreiðar og kynlíf
test
Til þess að geta stundað kynlíf og notið þess þarf heilbrigðan líkama. Líffæri sem virka eins og þau eiga að gera, nokkuð heila líkamsparta og huga sem er fær um kynferðislegar hugsanir. Það segir sig því sjálft að ef við viljum halda í kynlífsgetu okkar þá þurfum við að hugsa vel um líkamann. Okkur er ráðlagt að hreyfa okkur reglulega, þrjátíu mínútur á dag gera gæfumuninn.
Undanfarin ár hef ég tekið eftir því að samlandar mínir hafa farið að hreyfa sig meira utandyra. Það rann á okkur hlaupaæði fyrir um tíu árum, nú eru það hjólreiðar. Ég sé hjólandi fólk um allan bæ, stundum í tilheyrandi hjólafatnaði og stundum með allt sitt óvarið. Þessi auking, að mínu mati að minnsta kosti, er án efa góð fyrir heilbrigði okkar. Því er jafnvel haldið fram að hjólreiðar séu allra meina bót. Þær eru góðar fyrir stoðkerfið, til dæmis fara þær betur með hnén en hlaupin. Þær styrkja stóru vöðva líkamans, auka þol og líkt og önnur hreyfing auka framleiðslu gleðihormóna. Þær minnka mengun og spara peninga í samgöngukostnaði. En þær eiga sér dekkri hlið sem við heyrum lítið um.
Hjólreiðar geta nefnilega verið hættulegar kynlífi okkar.
Þegar kemur að kynheilbrigði okkar skiptir máli hvaða hreyfing verður fyrir valinu og hvaða búnað við notum til að verja okkur. Hjólreiðar geta valdið doða og jafnvel taugaskaða í kynfærum karla og kvenna. Þetta skýrist af því að þegar við sitjum á hjóli leggst þungi okkar á spöngina en ekki rassinn eins og þegar við sitjum á stól. Þetta á sérstaklega við ef setið er á mjóum hnakki á hrútastýrishjóli. Setbeinin eru til þess hönnuð að taka þunga líkamans á sig þegar við sitjum en spöngin ekki. Spöngin er svæðið á milli endaþarms og kynfæra. Í spönginni á karlmönnum er sá hluti limsins sem er innvortis, þegar þeir sitja á spönginni sitja þeir því beinlínis á typpinu á sér. Í spönginni eru æðar og taugar sem sjá kynfærunum fyrir blóði og tilfinningum. Ef við þrýstum á spöngina getum við heft blóðflæði til kynfæranna og valdið doða. Langvarandi þrýstingur getur valdið varanlegum skaða sem lýsir sér í ristruflunum og skertri tilfinningu í sníp og skaparbörmum. Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem hjólar mikið er líklegra til að finna fyrir doða í kynfærum sem getur leitt til kynlífsvanda en samanburðarhópur. Margt hjólafólk kannast við tímabundin doða í kynfærum eftir lengri hjólaferðir og getur hann verið fyrirvari langvarandi skaða.
Þessar hvimleiðu afleiðingar af hjólreiðum eiga þó líklega ekki við um hinn almenna hjólara sem hjólar um helgar sér til heilsubótar með réttum hjólabúnaði. Það er því ekki ástæða til að hætta að hjóla í hófi af ótta við að missa kyngetuna en hafa þarf í huga hvernig má njóta hjólreiða í sumarveðri og kynlífs á björtum nóttum.
Mig langar því að gefa lesendum góð ráð til að minnka hættuna á kynlífstengdum aukaverkunum af hjólareiðum. Val á hnakk er lykilatriði. Veldu breiðan hnakk, helst vel bólstraðan. Gelfyllt sæti með dempurum taka álag af spönginni. Einnig hefur reynst vel að nota hnakk sem er “neflaus” (e. noseless saddle). Á slíkum hnakki situr hjólarinn á setbeinunum en ekki á hnakknefinu. Þegar lögreglumenn í Seattle í Bandaríkjunum sem fara allra sinna ferða á hjóli skiptu úr venjulegum hnökkum yfir í neflausa hnakka minnkaði álag á spöngina verulega. Sýnt var fram á aukna risgetu með næturmælingum á risi eftir að skipt var um hnakka. Þessir hnakkar hafa þó ekki náð miklum vinsældum hjá hjólreiðafólki. Sætið þarf líka að stylla rétt, hnakkurinn má ekki vísa upp, sú staða eykur þrýsting á spöngina. Hæðin á hnakknum er annað atriði. Hann þarf að vera í réttri hæð. Fótleggurinn má ekki vera alveg beinn þegar petalinn er í lægstu stöðu. Til að verja sig enn fremur fyrir álagi á spöngina er gott að klæðast hjólabuxum með rasspúðum. Stilla þarf stýrið þannig að setið sé eins upprétt og hægt er. Það að halla sér fram á hjólinu og hafa hendur fyrir neðan mjaðmir veldur meiri þrýstingi á spöngina og þar af leiðandi minnkar blóðflæði til kynfæra. Að lokum er tilvalið að skiptu um stellingu á hjólinu og taka sér pásu á löngum hjólaferðum.
Ég mæli því með því að fólk njóti sumarsins á hjólinu sínu, hugi að búnaðinum og fái jafnvel hjólasérfræðinga í hjólabúðum til að aðstoða sig með stillingar á hjólinu. Ef þú finnur hins vegar doða í kynfærum farðu þá af hjólinu.
Áður birt í tímaritinu MAN