Af hverju kynlífsráðgjöf?
Hvað er kynlífsráðgjöf?
Kynlífsráðgjöf er samtalsmeðferð sem miðar að því að bæta kynlíf og samband fólks. Markmiðið með því að sækja kynlífsráðgjöf er að auka lífsgæði. Heilbrigðisstarfsfólk vinnur í raun við það að auka lífsgæði fólks. Við viljum bæta lífi við árin en ekki bara árum við lífið.
Af hverju kynlífsráðgjöf?
Það er óhjákvæmilegt í langtímasambandi að kynlífið breytist. Algengast er að fólk leiti sér aðstoðar vegna þess að kynlífinu hefur ekki verið sinnt eða jafnvel sambandið allt setið á hakanum. Fólk upplifir þá gjarnan að það vanti fjölbreytileikann, kynlífið sé komið í ákveðna rútínu sem ekki tekst að brjóta upp og að sambandinu hefur ekki verið sinnt vegna álags og anna t.d. vegna barneigna eða vinnu.
Aðrar algengar ástæður þess að fólk leitar sér aðstoðar hjá kynlífsráðgjafa eru: risvandi, brátt sáðlát, fullnægingarerfiðleikar; fullnæging er þá seinkuð eða aldrei náðst í sjálfsfróun eða með maka, sársauki við samfarir eða ekki getað stundað samfarir.
Great sex isn´t about doing what works for everyone, it´s about what works for you and your partner (Nagoski).
Hverjir koma í kynlífsráðgjöf?
Einstaklingar og pör, óháð kynhneigð eða kynvitund og á öllum aldri. Meiri hluti þeirra sem mæta í kynlífsráðgjöf eru í sambandi. Sumir mæta vegna ákveðinna vandamála en í auknum mæli er markmiðið að gera gott samband betra. Áföll eða álag eru einnig algeng ástæða þess að fólk leitar sér kynlífsráðgjafar. Allir eiga það sameiginlegt að vilja bæta og takast á við breytingar til þess að fá sem mest út úr sínu kynlífi, hvort sem það er í sambandi eða ekki.
Hvernig fer kynlífsráðgjöf fram?
Fólk mætir í viðtalstíma hjá kynlífsráðgjafa þar sem farið er yfir ástæðu þess að óskað er eftir aðstoð núna. Farið er yfir möguleg úrræði, fræðsla veitt og gefin heimaverkefni við hæfi. Farið er yfir heimaverkefni í hverjum tíma og ný verkefni gefin. Allir fá sérsniðna þjónustu eftir því hvað hentar hverju sinni.
Kynlífsráðgjöf er samtalsmeðferð og fer því fram í gegnum samtal í viðtalstímum og verkefni eru unnin heima. Aldrei er ætlast til þess að fólk sýni eða geri eitthvað kynferðislegt í viðtalstímum.
Ráðleggingar og aðferðir sem notaðar eru í kynlífsráðgjöf byggja á vísindalegum grunni sem fengin er í gegnum formlegt nám. Ráðgjöfin er ekki byggð á persónulegri reynslu, skoðunum eða hugmyndum kynlífsráðgjafans.
Kynlíf snýst um lífsgæði.
Við erum orðin meðvituð um að reyna að fá sem mest útúr lífinu. Njóta þess til fulls. Ég fagna þessu viðhorfi og líki því að fara í kynlífsráðgjöf við mannrækt eða heilsurækt. Við vitum öll að við eigum að borða vel, sofa nóg og hreyfa okkur til að auka hamingju og lífsgæði okkar. Við vitum líka að betra er að fyrirbyggja en reyna laga eftir á. Sambönd reyna á og stórt hlutfall þeirra enda í skilnaði. Það er því einlæg skoðun mín að allir sem vilja vera í langtímasambandi hafa gott af því að læra árangursríkar leiðir til að gera sambönd auðveldari og þar af leiðandi skemmtilegri. Rannsóknir hafa líka sýnt að til að auka heilbrigði og stuðla að lengra og betra lífi þá skiptir máli hvernig samband okkar er við maka. Fólk sem er í hamingjusömu sambandi lifir lengur, hefur sterkara ónæmiskerfi og er því betur varið fyrir ýmsum sjúkdómum. Einnig hefur verið sýnt fram á heilsufarslegan ávinning af kynlífi fyrir bæði konur og karla.