Framhjáhald – dauði eða nýtt upphaf?

test

Manneskjan er sköpuð þannig að hún vill para sig. Ég held að þessi staðreynd eigi sér tvíþætta skýringu. Í fyrsta lagi viljum við deila lífinu með einhverjum svo við höfum vitni að því sem við gerum. Það gefur lífi okkar vægi þegar aðrir vita hvað við gerum. Í öðru lagi viljum við para okkur til að viðhalda stofninum. Það er jú auðveldara að búa til börn þegar tvö koma saman. Flestir vilja einnig gifta sig og mikill meirihluti fólks gerir það. Við höfum rómatískar hugmyndir um hjónaband sem alið er á í flestum ævintýrum. Frá blautu barnsbeini heyrum við söguna um prinsessuna og prinsinn sem hittast, verða ástfangin og eru svo hamingjusamlega gift til æviloka. Endir. En ævintýrin enda einmitt alltaf þegar hjónabandið er að byrja. Aldrei er fjallað um hjónabandið þegar líður á, þegar prinsessan og prinsin eru ekki lengur hamingjusöm og ástfangin. Þessi blekkingarmynd af hjónabandi er mögulega ástæða þess að um helmingur hjónabanda endar í skilnaði og hlutfallið eykst eftir því sem við reynum oftar að gifta okkur. En þrátt fyrir þessar slæmu vinningslíkur á hamingju til æviloka vilja flestir freista gæfunnar.

Fólk heldur framhjá af því að manneskjan elskar tilfinninguna að vera ástfangin meira en manneskjuna sem hún elskar.

Það er dásamlegt að vera ástfangin, líklega er það ein besta tilfinning í heimi. Hugsanlega er þar skýringuna að finna afhverju fólk heldur framhjá. Ég heyrði nýlega að fólk heldur framhjá af því að manneskjan elskar tilfinninguna að vera ástfangin meira en manneskjuna sem hún elskar. Þegar ég heyrði þetta þá small eitthvað í höfðinu á mér. Er þetta skýringin á því að framhjáhöld hafa verið fylgisveinn hjónabanda frá örófi alda. Við erum alin upp við að það að verða ástfangin sé þess virði að fórna öllu fyrir og bara ef við erum ástfangin þá munum við lifa hamingjusöm það sem eftir er. Því leitar fólk í spennuna sem fylgir nýju ástarsambandi eða tilfinninguna að vera ástfangin eða hrifin af nýrri manneskju. Spennan sem fylgir hinu óþekkta laðar fólk að framhjáhaldi frekar en að það elski ekki makann sinn. Inní þetta spilar svo líklega sú staðreynd að það er spennandi að gera það sem má ekki. Við viljum fá það sem við eigum ekki. Framhjáhald er þá í eðli sínu löngun eftir því sem ekki má og því sem þú munt aldrei eiga. Þetta getur í mínum huga verið útskýring á því að meiri hluti para sem upplifa framhjáhald í núverandi sambandi halda áfram að vera par. Þegar spennunni hefur verið svalað með framhjáhaldi áttar fólk sig oft á því að það á maka sem það elskar og er í sambandi sem það hefur fjárfest í. Það vill ekki gefa það upp á bátinn þrátt fyrir að hafa upplifað eitthvað nýtt og spennandi með annarri manneskju. Aðrir átta sig hins vegar á að þeim þykir hjónabandið ekki þess virði að berjast fyrir eða þá skortir löngun til þess að halda því áfram. Það er jú þannig að ekki á að bjarga öllum samböndum eða að hægt sé að bjarga þeim.

Í okkar samfélagi áætlum við að ef þú heldur framhjá þá sé eitthvað að í sambandinu eða það sé eitthvað að þér. Ef það er rétt þá er eitthvað að stórum hluta mannkyns. Ég hef litla trú á þessari skýringu og enn minni trúa á því að það sé eitthvað að öllu því fólki sem heldur framhjá. Fæstir framhjáhaldarar sem vilja halda áfram í sínu hjónabandi eru raðframhjáhaldarar. Það fólk sem leitar til kynlífsráðgjafa er yfirleitt að leita að lausn til að halda hjónabandinu áfram þrátt fyrir framhjáhald. Það er ekki endurtekið að varpa sprengjum inní sambandið í þeim tilgangi að ganga af því dauðu. Hjá þessu fólki snýst framhjáhaldið um eitthvað annað en að eyðileggja hjónabandið. Það er því mín trú að við séum eitthvað að misskilja þegar við viljum sjóða niður framhjáhöld í skæruhernað. Ef sú væri raunin myndi fólk líklega skilja í stað þess að halda framhjá. Sérstaklega í samfélagi eins og við lifum í þar sem hjónaskilnaðir eru tíðir og þeim fylgir engin fordæming eða skömm.

Hvað er framhjáhald?

Ég er oft spurð að því hvað sé framhjáhald og hvað ekki. Hvað má og hvað ekki, hvenær er farið yfir strikið og hvenær ekki? Þetta eru vangaveltur sem flestir velta fyrir sér. En ég hef því miður ekkert eitt svar. Við höfum ekki komið okkur saman um eina útskýringu á hvað er framhjáhald. Því mat okkar á framhjáhaldi er persónubundið. Einum þykir ekkert vera framhjáhald nema samfarir hafi átt sér stað á meðan öðrum þykir framhjáhald að horfa á aðra manneskju girndaraugum. Sumir upplifa framhjáhaldið verra ef tilfinningatengsl urðu til en ef um líkamlegan atburð var að ræða. Það er því erfitt að henda reiður á það hvað er framhjáhald. Mín skoðun er sú að framhjáhald innihaldi alltaf eitthvert form af leynilegu sambandi, tilfinningalegri tengingu og kynlífs spennu. Hversu mikið eða langt er farið í þessum þremur þáttum er ólíkt milli framhjáhalda. Ein tegund framhjáhalds er að eiga í ástarsambandi, önnur að vera í felum með að vera á stefnumóta snjallforriti. Það sem skiptir þó meira máli en svarið við spurningunni hvað er framhjáhald er mat pars á því. Ef þú upplifir að maki þinn hafi farið yfir strikið í samskiptum við aðra þá er það framhjáhald í þínum huga. Það er mikilvægt að virða upplifun maka okkar þó við séum ekki endilega sammála. Án þess held ég að við komust ekki áfram í að ná sáttum eftir upplifað framhjáhald.

Framhjáhald er hjúskaparbrot og skal refsað með dauðadómi. Eða hvað?

Í almennri umræðu um framhjáhöld telja flestir að slík hegðun sé svo slæm að refsingin verði að vera dauðadómur yfir hjónabandinu. Framhjáhald sé hin fullkomnu svik hjónabandsins. Þau ógna öryggi okkar og jafnvel sjálfinu. Við leggjum allt traust okkar á makann, hann á að vera okkar besti vinur og eini elskhugi. Við játum því að vera trú þar til dauðinn aðskilur okkur fyrir framan Guð og menn þegar við göngum í heilagt hjónaband. Í öllum parsamböndum speglum við okkar persónu í makanum og ræðum oft um okkur sem tvo helminga af einni heild. Það eru því skiljanleg viðbrögð að þegar maki brýtur samkomulagið um trú að fólk óttist um sig og hjónabandið. Það vill enginn vera bara hálfur og þannig ógnar framhjáhald heildinni. Raunveruleikinn er því oft annar þegar kemur að refsingu fyrir glæpinn. Allt að 75% para sem upplifa framhjálhald í sínu sambandi halda áfram að vera par. Þessi staðreynd veldur því að ég velti því fyrir mér hvort við ættum að endurskoða hvernig við hugsum um framhjáhöld og hvernig við tökumst á við þau. Hjónaskilnaðir eru í dag algengir og jafnvel álitnir auðveldir. Það fylgir því ekki lengur skömm að skilja. En það er ákveðin skömm sem fylgir því að fyrirgefa framhjáld og halda áfram að vera saman. Því er erfitt fyrir fólk í dag að viðurkenna að makinn hafi haldið framhjá og það hafi ákveðið að vera áfram par. Vinir, vinkonur og aðrir aðstandendur eru oft fljót að dæma þann sem hélt framhjá og hvetja þann særða til að slíta hjónabandinu. Fordæming á framhjáhöldum sem alvarlegum glæpi sem refsa skuli með dauðadómi eykur á skömm þeirra sem vilja vera áfram í sínu sambandi þrátt fyrir hjúskaparbrot.    

Framhjáhald, hvað svo?

Ég tel að flestir spyrja sig því þegar þeir standa frammi fyrir því að upp hefur komist um framhjáhald hvort og þá hvernig megi laga hjónabandið í kjölfarið. Eiga hjónabönd sér framhaldslíf eftir slíkan atburð eða jafnvel atburði. Það er skiljanlegt að fólk spyrji sig hvort til sé hjónalíf eftir framhjáhald. Framhjáhald getur þýtt endalok hjónabands og það er líklega endalok allra hjónabanda eins og þau voru. En við endalok merkjum við einnig nýtt upphaf. Þegar einar dyr lokast opnast aðrar til að halda jafnvæginu. Fólk getur þannig upplifað nýtt hjónaband eftir framhjáhald jafnvel þó það sé áfram gift sömu manneskjunni. Fátt í lífinu er svo einfalt að það sé annað hvort í lagi eða ónýtt. En yfirleitt er það þó svo að strax eftir að upp kemst um framhjáhald skapast krísuástand. Þá er oft tilfinning fólks sú að heimurinn hafi hrunið og hjónabandið sé ónýtt eða dáið. Það er með framhjáhöld eins og aðra erfiða lífsreynsu að þegar við verðum fyrir henni þá þurfum við að takast á við líðanina út frá fimm grunnþáttum. Þá skiptir einu hvort fólk ætlar að takast á við þetta heima hjá sér eða með hjálp fagaðila. Þessir þættir eru að tryggja öryggi og koma í veg fyrir frekari skaða, halda ró, nýta stuðningsnet, hafa trú á því að hægt sé að komast í gegnum krísuna og halda í vonina. Eftir að upp kemst um framhjáhald má tryggja öryggi beggja aðila með því að t.d. ákveða hver sefur hvar, tryggja næði til að vinna úr lífsreynslunni og sjá til þess að ekki hafi orðið skaði á líkamlegri heilsu parsins s.s. vegna kynsjúkdóma. Mikilvægt er að reyna að skapa sér ró í umhverfinu og huganum t.d. með því að gera öndunaræfingar og að forgangsraða verkefnum. Gott er að virkja stuðningsnetið sitt á krísutímum. Gott er þá að spyrja sig, hver getur stutt og á hvaða hátt. Þá er lykilatriði að umvefja sig styrkjandi fólki því viðbrögð annarra geta haft áhrif á líðan okkar. Þeir sem trúa því að þeir komist í gegnum erfiða tíma virðist vegna betur þegar þeir upplifa áföll en þeim sem trúa því t.d. að áfallið hafi verið refsing. Til þess að komast í gegnum erfiða lífsreynslu þarf maður líka að hafa von um betri tíma og von um bata. Krísuástandið mun líða hjá eins og annað í lífinu. Ekki er ráðlagt að taka stórar ákvarðanir þegar fólk er í krísu. Það ætti því að bíða með ákvarðanir um líf eða dauða hjónabandsins þar til mestu krísunni léttir.

Krísa. Innsýn. Nýtt upphaf – saman eða í sundur.

Þegar upphaflega krísan er gengin yfir reynir fólk yfirleitt að öðlast skilning á því af hverju framhjáldið gerðist. Þá er einnig oft sagt að bati hefjist þegar gerandi viðurkenni brotið. Þetta á líklega einnig við þegar upp hefur komist um framhjáhald og felst þá í því að gerandinn gangist við brotinu. Skilningur felst í því að fá innsýn í þýðingu framhjáhaldsins og í hvaða tilgangi það var framið. En ekki í því að spyrja hvað gerist, hversu oft, og var það betra með hinum aðilanum o.s.frv. Líklegra er að hægt sé að vinna úr framhjáhaldi ef fólk getur spurt hvað þýddi þetta fyrir þig, hvað fékkstu útúr þessu sem þú fékkst ekki lengur í hjónabandinu, hvað er það við hjónabandið sem þú metur, og ertu ánægð með að þessu sé lokið. Það að spyrja í þaula um hvað gerðist er líklegra til að valda hjónabandinu frekari skaða. Flestir eiga þó því miður afar erfitt með að hemja sig í slíku spurningaflóði. Þá er fólk óafvitandi að valda sér óþarfa skaða í góðri von um bata. Það þarf líka að muna á þessum tíma sem parið reynir að fá skilning á framhjálhaldinu að framhjáhöld gerast í góðum og slæmum hjónaböndum. Hugsanlega er skýringin ekki eingöngu tengd parinu heldur einstaklingnum. Það þarf að spyrja sig hvaða þörf var verið að uppfylla og afhverju þessi leið var valin.

Eftir framhjáhald þarf fólk að læra að treysta aftur og þá er ágætt að spyrja sig í hverju felst traustið í hjónabandinu. Er það algjört traust eða er nóg að treysta sumu og láta annað koma í ljós. Ég er ekki viss um að algjört traust sé til. Sem dæmi má nefna að við treystum ekki maka okkar fyrir öllu s.s. að velja föt á börnin fyrir afmæli eða að borga reikinga á réttum tíma. Ég held því að eftir framhjáhald verði fólk að skoða traust í víðu samhengi í sínu sambandi. Síðan þarf að ákveða hvað er nóg traust til að geta lifað saman og haldið áfram. Einnig er nytsamlegt að læra og temja sér árangursrík samskipti og að leysa ágreining. Þetta tvennt er talið besta vörnin gegn skilnuðum og sambandsslitum.

Að lokum þarf fólk að gera upp við sig hvort það geti leyft sér að horfa á sambandið á nýjan hátt og láta framhjáhaldið marka nýtt upphaf. Er geta og vilji til þess að skapa nýtt samband úr óreiðunni sem framhjáhaldið skapaði? Getum við lært af reynslunni og orðið sterkari fyrir vikið.

Pistill birtur í MAN 2016.