Að gefa í eða bremsa

test

Rannsóknir á kynhegðun mannsins eru ekki alda gamlar. Kynfræði, fræðin um kynhegðun mannskepnunnar, er ung fræðigrein. Fyrstu rannsóknir kynfræðinga könnuðu hvað gerist líkamlega þegar við stundum kynlíf. Fólk var fengið til þess að koma á tilraunastofur og stunda sjálfsfróun eða kynlíf á meðan lífsmörk þess voru mæld. Þannig öðluðumst við skilning á kynsvörun. Þegar síðasta öld var að líða undir lok fóru kynfræðingar að rannsaka hvað veldur kynhegðun okkar, ekki hvernig hún lítur út á mælitækjum. Spurningin hvað kveikir löngun og hvað slekkur hana varð kveikjan að kenningu sem í dag er kölluð tvístjórnun (e. Dual control model).

Tvístjórnun kynhegðunar byggir á því að taugakerfið (heilinn og mænan) sé samsett úr mörgum pörum af bensíngjöfum og bremsum. Þetta þekkjum við út frá t.d. sympatíska og parasympatíska taugakerfinu. Hugmyndin sem kveikti kenninguna er að kynlíf hlýtur að lúta sömu taugafræðilegu lögmálum og annað í líkama og hegðun okkar. Niðurstaðan var því að við höfum bensíngjöf og bremsu sem stjórna kynlífi okkar.

Bensíngjöfin er ábyrg fyrir kynferðislegri örvun. Hún skannar umhverfið fyrir kynferðislega jákvæðum eða örvandi skilaboðum – hvað við sjáum, heyrum, finnum lykt af, skynjum í gegnum snertingu, bragð og ímyndun. Þegar hún skynjar kynferðislega jákvæð skilaboð segir hún heilanum að gefa í og kveikja á kynferðislegri löngun og örvun. Bensíngjöfin er stöðugt að skanna umhverfi okkar (líka hugsanir og tilfinningar) fyrir kynferðislega viðeigandi og jákvæðum skilaboðum. Hún hættir aldrei störfum þó við séum alls ekki alltaf meðvituð um hana. Hún virkar eins og annað sem taugakerfið stjórnar, s.s öndun og meltingu. Við erum ekki meðvituð um þessa starfsemi fyrr en búið er að ræsa kerfið t.d. þegar maginn tæmist verðum við svöng. Viðeigandi skilaboð kalla á viðeigandi svar.

Bremsan sér um að hemja kynsvörun og hegðun. Þessar hömlur sem hún setur hafa ekkert með feimni að gera. Þetta er bara taugafræðilegt svar um að slökkva á kynferðislegri örvun. Til þess að flækja málin aðeins sýndu rannsóknir á tvískiptingunni að bremsurnar eru tvær. Eins og í góðum bíl þarf fót- og handbremsu, sama á við um kynörvun. Fótbremsan virkar eins og bensíngjöfin, hún er alltaf að skanna umhverfið fyrir hættum – það sem við sjáum, heyrum, finnum lykt af, skynjum í gegnum snertingu, bragð og ímyndun. Neikvæð eða hættu skilaboð segja heilanum að slökkva á kynlöngun og örvun. Fótbremsan ber þannig ábyrgð á því að við verðum ekki örvuð á óviðeigandi stöðum t.d. þegar við erum að halda fyrirlestur eða í fjölskylduboði. Fótbremsan er að verkum þegar öll örvun stoppar í skyndi þegar mamma opnar hurðina þrátt fyrir að kynferðisleg hegðun sé hafin. Handbremsan hins vegar virkar líkt og stöðug en veikari bremsa. Hún sendir skilaboðin nei, takk samt.

Bremsurnar þjóna ólíkum tilgangi. Fótbremsan stjórnast af ótta við afleiðingar, en handbremsan af ótti um frammistöðu. Í dag vinnum við eins með báðar þessar bremsur þegar við viljum ná betri stjórn á kynlöngun eða svörun. Það virðist ekki skipta máli hvor bremsan er að verki. Hver veit hvort að framtíðin beri það í skauti sér að við getum greint þessar bremsur betur í sundur og aðlagað ráðleggingar eða jafnvel lyfjameðferð að annarri hvorri. Verkefni fólks er núna að finna hvað bremsar hjá mér og hvað geri ég til þess að slökkva á löngun eða hegðun. Þegar hver og einn hefur fundið það út fyrir sig þá má ná betri stjórn.

 

Þessi tvístjórnun er ekki flókin í sjálfu sér en betri skilningur á því hvernig við virkum getur haft verulegar afleiðingar. Kynlíf snýst um að það sé jafnvægi á milli bensínsgjafarinnar og bremsanna. Þegar svo er gengur allt smurt.

 

Pistill birtist fyrst í Mannlífi sem kom út 26. janúar og síðar á Kjarninn.is