Um Mig
Ferilskrá
Nám:
• B.Sc. í hjúkrunarfræði, frá Háskóla Íslands
• MFS (Master of Forensic Sexology) með láði frá Curtin University of Technology í Perth í Ástralíu. Á þeim tíma var námið verðlaunað sem framúrskarandi nám í kynfræði af heimssamtökum kynfræðinga (World Association of Sexual Heath).
• PGDip PST (psychosexual therapist) frá Háskólanum í Hull á Englandi í samstarfi við The Relate Institute. Námið er viðurkennt af bresku kynfræðisamtökunum (College of Sexual and Relationship Therapists, COSRT).
Áslaug hefur lokið þjálfun í áfallameðferð, bæði EMDR og CPT. Báðar aðferðir eru gagnreyndar meðferðir við áfallastreitu.
Áslaug hefur verið í stjórn Kynfræðifélags Íslands frá 2006, sem formaður og gjaldkeri. Einnig var hún formaður NACS (Nordic Association of clinical sexology) frá 2009-2010.
Áslaug vann á geðsviði Landspítalans um árabil. Þar sinnti hún kynlífsráðgjöf, bráðaþjónustu geðsviðs og áfallavinnu auk almennrar göngudeildarþjónustu. Áslaug er stundakennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri. Hún hefur einnig verið eftirsóttur fyrirlesari hjá ýmsum félagasamtökum og var hluti af kennarahópi á námskeiðum hjá Ljósinu í mörg ár. Einnig vann hún við kynlífsráðgjöf hjá Krabbameinsfélagi Íslands um árabil.
Áslaug hefur verið pistlahöfundur í tímaritum og á netmiðlum. Hún hefur birts í sjónvarpsþáttum um ást, samskipti og kynlíf s.s. Allskonar kynlíf og Fávitar og miðlað þar sérþekkingu sinni til áhorfenda.
Áslaug er höfundur bókarinnar Lífið er kynlíf – handbók kynfræðings um langtímasambönd sem kemur út í ágúst 2023.
Sagan mín
Það kann að hljóma undarlega, og líklega af því það er það, að ég ákvað mjög ung að verða kynlífsráðgjafi. Ég man ekki í dag hvaðan þessi hugmynd kom. Líklega ákvað ég þetta í upphafi kynþroska, vitni eru að því að ég hafi sagst ætla starfa við þetta fag í gagnfræðaskóla. Þegar kom að því að velja mér háskólanám taldi ég best eftir ráðgjöf hjá námsráðgjafa Kvennaskólans að fara í hjúkrunarfræði. Þar fengi ég bæði þekkingu á líkamlegum og andlegum þáttum kynlífs. Í hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands lærði ég að líta á fólk sem heild margra ólíkra kerfa sem öll þurfa að vinna saman til að mynda eina manneskju. Starf hjúkrunarfræðinga er að auka lífsgæði fólks. Það er leiðarljós mitt í starfi alla daga.
Eftir hjúkrunarfræðinámið vissi ég að aðeins fyrsta áfanga var lokið. Næsta skref var því að leggja land undir fót og fara til Perth í Ástralíu og læra kynfræði (e. sexology). Sú fræðigrein snýst um að auka skilning okkar á kynhegðun fólks. Fræðigreinin er ung en við söfnum jafnt og þétt þekkingu um kynhegðun mannanna. Í Ástralíu fann ég að ég var á réttri leið og þar öðlaðist ég góðan grunn í fræðigreininni sem ég hef byggt ofan á síðan og notað í ráðgjöf.
Það er ekki nóg að vera fræðingur til að sinna samtalsmeðferð. Kynfræðingar skiptast í þrjá hópa: kynfræðara, rannsakendur og kynlífsráðgjafa. Eftir námið í Perth vissi ég að ég þyrfti að bæta við mig einni gráðu enn. Þá hófust ferðalög til Bretlands þar sem ég lærði sambandsráðgjöf með áherslu á kynlífsráðgjöf (e. sex therapy). Eftir margar ferðir til London yfir tvö ár og verknám á göngudeild geðsviðs Landspítalans útskrifaðist ég full fær til að sinna því sem mér finnst skemmtilegast. Að aðstoða fólk við að vera í nærandi og fullnægjandi langtíma samböndum. Ég hef starfað síðan við mitt fag á Landspítalanum og á einkastofu.
Persónulega sagan er sú að ég hef alltaf haft gaman að því að fylgjast með fólki og mannlegu eðli. Ég hef alltaf haft áhuga á ástinni og lífsgleðinni sem henni fylgir. Ég er alin upp af hjónum sem lifðu í ástríku hjónabandi til dauðadags föður míns. Sjálf hef ég verið gift yfir tvo áratugi og eignast þrjú börn. Eitt barn fyrir hverja háskólagráðu. Ég veit vel að langtímasambönd eru ekki alltaf dans á rósum. En ef við náum að sjá það jákvæða og lærum árangursríkar leiðir til að búa saman, sem par og sem samfélag, er víst að lífið verður betra og samkvæmt rannsóknum lengra og heilbrigðara.