Sérfræðingur í fótbolta og ráðgjafi í sjónvarpinu talaði um það að árangur íslenska landsliðsins í fótbolta undanfarin ár væri að hluta að þakka stórkostlegum fyrirliða liðsins. “Við höfum aldrei átt fyrirliða sem hefur haldið liðinu svona vel sama og þegar hann er ekki með þeim á vellinum gengur þeim verr” sagði hann.
Þessi setning hafði mikinn samhljóm við það sem ég sé ítrekað í minni vinnu. Ég ræði oft við pör um fyrirliðahlutverk í parsambandi og hversu mikið er undir ef hann er ekki inni á vellinum. Þá verður parið oftar en ekki sundurleit heild sem vinnur ekki leikinn.
Í hverjum mánuði hitti ég mikið af fólki sem er alveg búið á því og segist eiga litla sem enga orku eftir. Sjaldnast er það þó þannig að fólkið hafi enga orku, það hefur nóg af orku og ást en hún fer öll í börnin. Börnin fá athyglina, eru miðpunkturinn, það er leikið við þau, þau upplifa forvitnina og nýju upplifanirnar eru þeirra. Parið hins vegar nær varla andanum, höfuðið er alltaf undir vatni í umönnun barnanna.
En líkt og í fótbolta þarf gott lið að hafa liðstjóra og fyrirliða.
Liðstjórinn heldur utan um liðið. Hann er í undirbúningsvinnu fyrir mótin og í vinnu allan mótstímann og ber ábyrgð á að liðinu skorti ekki neitt. Allir leikmenn fái búninga og hreina sokka.
Að sama skapi er foreldri A í foreldrapari liðstjóri fjölskyldunnar. Hann sér um að kaupa pollagalla, stígvél, útbúa nesti og þar fram eftir götunum. En í fótbolta fær einn leikmaður það hlutverk að vera fyrirliði. Hann heldur liðinu saman, dregur fram það besta í hverjum leikmanni og leyfir þeim að sýna sínar bestu hliðar. Í samböndum hins vegar gleymist stundum að útnefna fyrirliða, sem væri foreldri B í parinu. Fyrirliðinn sér um að halda parinu saman, að það fái að njóta sín og sýna sínar bestu hliðar sem maki eða manneskja en ekki sem foreldri.
Það vill því miður oft verða þannig að foreldri B sem reynir að halda á lofti fyrirliðahlutverkinu fær litlar þakkir fyrir og jafnvel skammir fyrir það. Það birtist svona: foreldri A er uppgefið eftir undirbúning og umönnun liðsins þegar foreldri B reynir að minna á hlutverk sitt með viðreynslu. Viðkvæðið er þá “ertu galin að halda að ég geti farið að stunda kynlíf núna? Veistu hvað ég er búin að vera gera fyrir heimilið, börnin, fjölskylduna?”. Liðstjórinn sér ekki hvert hlutverk fyrirliðans er sem er að reyna að standa vörð um sambandið og kynlífið á meðan liðstjórinn er upptekinn við annað.
Hvað er til ráða fyrir þessi pör? Það fyrsta sem þarf að gera er að útdeila hlutverkum og ræða svo viðhorf parsins til þeirra. Það er árangursríkast að byrja á því að breyta hugsunum okkar til þess að geta breytt hegðuninni. Það er flóknara að reyna að breyta hegðun innan gamla rammans. Annað foreldrið í parinu fær hlutverk liðstjóra og hitt fær hlutverk fyrirliða. Þetta eru líklega hlutverk sem hafa verið til staðar en ekki verið opinber. Það getur því stundum verið erfitt að halda áfram hlutverkinu sem er að sliga mann. En þegar við förum að hugsa um þau á nýjan hátt breytist oft margt. Þannig getur orðið breyting á því hvernig við sjáum hlutverkin og parið fer að takast á við lífið saman. Sem eitt lið. Þegar makinn sem er fyrirliði sambandsins fer að reyna við þreyttan liðstjórann upplifir hann ekki að það sé verið að fara fram á meira, óska eftir meiri umönnun. Liðstjórinn getur leyft sér að horfa á viðreynsluna sem boð um að vera maki en ekki foreldri í ákveðin tíma. Fyrirliðinn í sambandinu sér sig ekki vera þann sem suðar og biður um heldur þann sem býður. Að sama skapi sér fyrirliðinn að það skiptir máli að það sé til staðar liðsstjóri fyrir fjölskylduna. Sá sem heldur utan um börnin. Því án þess væri engin fjölskylda. En án sambandsins væri heldur ekkert par.
Líkt og velgengi íslenska landsliðsins í fótbolta á HM 2018 veltur á því að liðstjórinn og fyrirliðinn geri liðinu kleyft að sýna sitt besta þá veltur velgengni fjölskyldunnar í nútímanum á því að pör rækti samband sitt. Ef parið er ekki ánægt verður engin fjölskylda. Fyrir langflest pör þá byggir hamingja þeirra að einhverju leiti á því að þau séu í góðu erótísku sambandi. Það er því mikilvægt að á löngum lista yfir það sem þarf að gera fyrir börnin sé að foreldrarnir eigi gott kynlíf.
Liðinu gengur betur þegar verkaskiptingin er klár, þá vita allir sitt hlutverk og geta spilað leikinn af öryggi. Þá eigum við jafnvel möguleika á að komast í heimsklassa.