Minnkuð kynlöngun karla og kvenna er algengasta ástæða þess að fólk leitar sér aðstoðar kynlífsráðgjafa. Þá vill annar aðilinn meira kynlíf og hinn minna. Þetta veldur togstreitu og algengt er að fólk ætlist til þess að sá sem vill minna taki sig á og samþykki meira.
Á undanförnum áratugum hefur kynlöngun kvenna orðið að rannsóknarefni og verið talin vandamál sem þurfi að takast á við. Komið hefur í ljós að meiri hluti kvenna glímir við of litla kynlöngun í núverandi sambandi. Ég velti því fyrir mér hvernig má það vera að skortur á kynlöngun kvenna sé óeðlilegur eða vandamál ef slíkt ástand er upplifun meirihlutans.
Árið 2013 kom út ný útgáfa af sjúkdómsflokkunarkefinu DSM sem notað er t.d. í Bandaríkjunum. Í þessari útgáfu var kynntur til sögunnar nýr sjúkdómsflokkur, minnkuð kynlöngun karla. Þetta þótti mér tímabært enda er um helmingur þeirra sem leita til mín vegna minnkaðrar kynlöngunar karlar og helmingur konur. Þetta er andstætt því sem okkur hefur verið kennt hingað til.
Þegar spurt er um kynlöngun er yfirleitt verið að ræða við fólk í sambandi. Viðmælendur svara því út frá kynlífsáhuga sínum í núverandi sambandi. Minnkuð kynlöngun er því oftar en ekki sambandsbundin. Mín reynsla er sú að fólk hafi ekki löngun í það kynlíf sem það er að stunda frekar en að það hafi ekki áhuga á kynlífi yfir höfuð.
Í stað þess að fara að vinna í því að fá þann sem hefur minni löngun í kynlíf til að vilja meira af því sama þarf að virkja sköpunarkraftinn. Það er ekki líklegt að við viljum meira af því sama með því að gera það oftar. Fólk vill eitthvað meira en það sem í boði er. Bæði sá sem hefur minni áhuga og sá sem hefur meiri áhuga. Það er því ljóst að vandinn er parsins. Þegar báðir aðilar horfa á sinn þátt í ójafnvæginu og taka ábyrgð saman á ófullnægjandi kynlífi eða kynlífsleysi er mun auðveldara að vinna sig út úr því.
Í kynlífsráðgjöf bið ég fólk um að hugsa um hvað það gerir til þess að kveikja á sér og hvað það gerir til þess að slökkva á sér. Takið eftir að ábyrgðin er hjá okkur sjálfum og spurningin er því ekki hvað gerir maki til að kveikja eða slökkva á mér. Nýlegar rannsóknir sýna að fólk slekkur á kynlöngun sinni í tengslum við ýmsa lífsatburði. Það er algengt að barneignir hafi áhrif á kynlöngun karla og kvenna. Einnig álag í vinnu, umönnun fjölskyldu, veikindi og það að vera í langtímasambandi getur haft neikvæð áhrif á kynlöngunina.
Þessar rannsóknarniðurstöður eru í takt við það sem ég heyri í minni vinnu. Kynlífið er látið sitja á hakanum, það þarf að sinna svo ótal mörgum verkefnum að þegar kemur að háttatíma sem oft er tengdur við kynlífstíma þá er öll orkan búin. Sé kynlíf stundað þrátt fyrir að lítil orka sé eftir til þess er það oftast samfarir með því markmiði að komast sem fyrst í mark. Lágmarks vinna með lágmarks árangri. Að sama skapi lætur fólk sambandið sitja á hakanum. Það er því ekki skrýtið að kynlöngun minnki. Því sem ekki er sinnt dafnar ekki.
Kynlíf sem stundað er rétt fyrir svefn með lágmarks vinnuframlagi er oftar en ekki kynlíf sem skilur lítið eftir annað en losun. Þessu má líkja við að grípa skyndibita í stað þess að setjast niður og njóta máltíðarinnar. Maður verður saddur af skyndibitanum en hugsar líklega ekki með tilhlökkun til næsta skiptis.
Það eru lífsgæði fólgin í því að borða hollan og nærandi mat. Það sama á við um gott og nærandi kynlíf, það eykur lífsgæði okkar.