Fótbolti og kynlíf

test

Sérfræðingur í fótbolta og ráðgjafi í sjónvarpinu talaði um það að árangur íslenska landsliðsins í fótbolta undanfarin ár væri að hluta að þakka stórkostlegum fyrirliða liðsins. “Við höfum aldrei átt fyrirliða sem hefur haldið liðinu svona vel sama og þegar hann er ekki með þeim á vellinum gengur þeim verr” sagði hann.

Þessi setning hafði mikinn samhljóm við það sem ég sé ítrekað í minni vinnu. Ég ræði oft við pör um fyrirliðahlutverk í parsambandi og hversu mikið er undir ef hann er ekki inni á vellinum. Þá verður parið oftar en ekki sundurleit heild sem vinnur ekki leikinn.

Í hverjum mánuði hitti ég mikið af fólki sem er alveg búið á því og segist eiga litla sem enga orku eftir. Sjaldnast er það þó þannig að fólkið hafi enga orku, það hefur nóg af orku og ást en hún fer öll í börnin. Börnin fá athyglina, eru miðpunkturinn, það er leikið við þau, þau upplifa forvitnina og nýju upplifanirnar eru þeirra. Parið hins vegar nær varla andanum, höfuðið er alltaf undir vatni í umönnun barnanna.

En líkt og í fótbolta þarf gott lið að hafa liðstjóra og fyrirliða.

Liðstjórinn heldur utan um liðið. Hann er í undirbúningsvinnu fyrir mótin og í vinnu allan mótstímann og ber ábyrgð á að liðinu skorti ekki neitt. Allir leikmenn fái búninga og hreina sokka.  

Að sama skapi er foreldri A í foreldrapari liðstjóri fjölskyldunnar. Hann sér um að kaupa pollagalla, stígvél, útbúa nesti og þar fram eftir götunum. En í fótbolta fær einn leikmaður það hlutverk að vera fyrirliði. Hann heldur liðinu saman, dregur fram það besta í hverjum leikmanni og leyfir þeim að sýna sínar bestu hliðar. Í samböndum hins vegar gleymist stundum að útnefna fyrirliða, sem væri foreldri B í parinu. Fyrirliðinn sér um að halda parinu saman, að það fái að njóta sín og sýna sínar bestu hliðar sem maki eða manneskja en ekki sem foreldri.

Það vill því miður oft verða þannig að foreldri B sem reynir að halda á lofti fyrirliðahlutverkinu fær litlar þakkir fyrir og jafnvel skammir fyrir það. Það birtist svona: foreldri A er uppgefið eftir undirbúning og umönnun liðsins þegar foreldri B reynir að minna á hlutverk sitt með viðreynslu. Viðkvæðið er þá “ertu galin að halda að ég geti farið að stunda kynlíf núna? Veistu hvað ég er búin að vera gera fyrir heimilið, börnin, fjölskylduna?”. Liðstjórinn sér ekki hvert hlutverk fyrirliðans er sem er að reyna að standa vörð um sambandið og kynlífið á meðan liðstjórinn er upptekinn við annað.

Hvað er til ráða fyrir þessi pör? Það fyrsta sem þarf að gera er að útdeila hlutverkum og ræða svo viðhorf parsins til þeirra. Það er árangursríkast að byrja á því að breyta hugsunum okkar til þess að geta breytt hegðuninni. Það er flóknara að reyna að breyta hegðun innan gamla rammans. Annað foreldrið í parinu fær hlutverk liðstjóra og hitt fær hlutverk fyrirliða. Þetta eru líklega hlutverk sem hafa verið til staðar en ekki verið opinber. Það getur því stundum verið erfitt að halda áfram hlutverkinu sem er að sliga mann. En þegar við förum að hugsa um þau á nýjan hátt breytist oft margt. Þannig getur orðið breyting á því hvernig við sjáum hlutverkin og parið fer að takast á við lífið saman. Sem eitt lið. Þegar makinn sem er fyrirliði sambandsins fer að reyna við þreyttan liðstjórann upplifir hann ekki að það sé verið að fara fram á meira, óska eftir meiri umönnun. Liðstjórinn getur leyft sér að horfa á viðreynsluna sem boð um að vera maki en ekki foreldri í ákveðin tíma. Fyrirliðinn í sambandinu sér sig ekki vera þann sem suðar og biður um heldur þann sem býður. Að sama skapi sér fyrirliðinn að það skiptir máli að það sé til staðar liðsstjóri fyrir fjölskylduna. Sá sem heldur utan um börnin. Því án þess væri engin fjölskylda. En án sambandsins væri heldur ekkert par.

Líkt og velgengi íslenska landsliðsins í fótbolta á HM 2018 veltur á því að liðstjórinn og fyrirliðinn geri liðinu kleyft að sýna sitt besta þá veltur velgengni fjölskyldunnar í nútímanum á því að pör rækti samband sitt. Ef parið er ekki ánægt verður engin fjölskylda. Fyrir langflest pör þá byggir hamingja þeirra að einhverju leiti á því að þau séu í góðu erótísku sambandi. Það er því mikilvægt að á löngum lista yfir það sem þarf að gera fyrir börnin sé að foreldrarnir eigi gott kynlíf.

Liðinu gengur betur þegar verkaskiptingin er klár, þá vita allir sitt hlutverk og geta spilað leikinn af öryggi. Þá eigum við jafnvel möguleika á að komast í heimsklassa.

 

Viðhorf og væntingar til kynlífs í nýju sambandi.

test

Hér má lesa viðtal sem birtist í Brúðarblaði Morgunblaðsins 2018. Einnig má lesa það hér fyrir neðan.

Áslaug Kristjáns­dótt­ir starfar sem kyn­lífs­ráðgjafi á Domus Ment­is, Geðheilsu­stöð. Hún seg­ir að í aðdrag­anda gift­inga þegar und­ir­bún­ing­ur­inn er í há­marki ættu brúðhjón að gera með sér samn­ing um hvernig kyn­lífs þau vilja njóta í líf­inu.

Brúðkaup eru oft­ar en ekki hald­in með pomp og prakt. Und­ir­bún­ing­ur­inn er tals­verður enda hafa brúðhjón­in í ýmsu að snú­ast. „Að mínu mati er mik­il­vægt á þess­um tíma­mót­um að ræða um og jafn­vel gera með sér samn­ing um kyn­lífið í hjóna­band­inu. Marg­ir eru með fjár­mál­in á hreinu og gera jafn­vel kaup­mála fyr­ir brúðkaupið. Þau vita hvar þau ætla að búa, hvað þau lang­ar í mörg börn og fleira. En oft­ar en ekki gleym­ist samn­ing­ur­inn um kyn­lífið,“ seg­ir Áslaug og held­ur áfram. „Spurn­ing­ar eins og: Hvaða vænt­ing­ar hef­ur þú til kyn­lífs í þessu hjóna­bandi? Hvernig ætl­um við að hafa það næstu árin eða í framtíðinni? skipta máli að mínu mati,“ seg­ir Áslaug.

Hún seg­ir að sam­kvæmt rann­sókn­um virðist þetta mál­efni vera áskor­un fyr­ir okk­ur öll.

„Rann­sókn­ir sýna að við töl­um ekki um kyn­líf við þann sem við stund­um kyn­líf með. Í mín­um huga er það frá­leitt þar sem gott kyn­líf snýst um sam­skipti, vænt­inga­stjórn­un og sam­still­ingu.“

Setjið ykk­ur mark­mið og farið eft­ir þeim

Áslaug mæl­ir með að fólk setji sér mark­mið, fari eft­ir þeim og þannig sé hægt að mæla hvort það virki eða ekki. „Það er á okk­ar eig­in ábyrgð að stunda gott kyn­líf og að fram­fylgja samn­ing­um sem við ger­um. Ég kalla alla til ábyrgðar fyr­ir sína eig­in kyn­lífs­ham­ingju. Það ber eng­inn ann­ar ábyrgð á því að ég fái eitt­hvað út úr kyn­líf­inu.“

Að mati Áslaug­ar er slæm hug­mynd að ákveða magn kyn­lífs. Hún set­ur gæðin um­fram magnið og aðstoðar fólk við að tengj­ast og eign­ast náið sam­band.

„Kyn­líf er ein­mitt það sem teng­ir okk­ur sem pör í sam­bönd­um, sem við eig­um vana­lega ekki við aðra utan sam­bands okk­ar.“

Hún seg­ir mann­fólkið ólíkt í eðli sínu og við höf­um mis­mikla löng­un í kyn­líf. „Fólk þarf að velta fyr­ir sér hversu auðvelt það eigi með að fram­kalla kyn­lífslöng­un hjá sér. Það þarf að velta fyr­ir sér hlut­um eins og: Veit ég hvað ég vil yfir höfuð í kyn­líf­inu mínu? Það lang­ar eng­an í eitt­hvað sem er eins og skylda eða vinna inn­an sam­bands­ins.“

Þegar kyn­lífið fjar­ar út í sam­bönd­um

Hvað ger­ir fólk sem er hætt að stunda kyn­líf í sam­bönd­um? „Þegar kyn­lífið er staðnað leita þeir sem eru í góðum sam­bönd­um oft í kyn­lífs­ráðgjöf. Þess­ir ein­stak­ling­ar hafa kannski ekki náð að viðhalda ástríðunni í sam­band­inu.“

Hún bend­ir á hvað það er miklu al­geng­ara að fólk ræði skuld­bind­ing­ar sín­ar í sam­bönd­um held­ur en ástríðu.

Jafn­framt bend­ir Áslaug á þá spurn­ingu: Hvernig get­ur þig langað í það sem þú átt nú þegar?

„Þarna erum við kom­in að eró­tík, spennu, eða ein­hverju nýju. Þegar ég veit allt um mak­ann minn og er ör­ugg með hann, þá get­ur hjálpað til í sam­bönd­um að gera eitt­hvað nýtt og spenn­andi.“

Hún seg­ir að við lif­um á tím­um þar sem eðli­legt er að allt sé einnota. „Ef eitt­hvað bil­ar þá hend­um við því til hliðar, við ger­um ekki við hlut­ina í jafn mikl­um mæli og áður. Við jafn­vel fáum okk­ur nýja hluti þó að þeir gömlu séu vel not­hæf­ir.“

Hún seg­ir að þrátt fyr­ir þetta sé yngra fólk vilj­ugra að nýta sér kyn­lífs- eða sam­bands­ráðgjöf en þeir eldri. „Lík­lega er það kyn­slóðamun­ur, hvenær þykir eðli­legt að leita sér aðstoðar sér­fræðinga og hversu mikið við eig­um bara að þjást í hljóði.“

Al­geng­ustu áskor­an­irn­ar í sam­bönd­um

Al­geng­ustu áskor­an­irn­ar að mati Áslaug­ar eru mis­mun­andi áhugi á kyn­lífi í sam­bönd­um. Þegar ann­ar aðil­inn vill meira en hinn. Eins geta áskor­an­ir fal­ist í ris­vanda­mál­um, sárs­auka við sam­far­ir og fleira.

Þegar ann­ar aðil­inn eða báðir loka á kyn­líf í sam­bönd­um geta alls kon­ar hlut­ir verið upp á ten­ingn­um að henn­ar mati. „Stund­um not­um við þetta sem vopn, stund­um til að stjórna. Ég mæli aldrei með því. Þar sem það er mjög eyðileggj­andi fyr­ir sam­bönd­in okk­ar. Stund­um erum við ekki að sinna sam­bönd­un­um okk­ar. Við erum upp­tek­in með marg­ar skyld­ur, börn, for­eldra, heim­ili og fleira svo kyn­lífið sit­ur á hak­an­um.“

Til þess að fólk geti átt gott kyn­líf þarf það að vera til­búið að taka ábyrgð á sínu eig­in kyn­lífi og breyta hugs­un og hegðun sinni að mati Áslaug­ar. „Þeir sem eru vilj­ug­ir að taka ráðlegg­ing­um og eru til­bún­ir að taka á sig vinn­una upp­lifa hvað mestu breyt­ing­arn­ar.“

Áslaug tal­ar um hvernig það að taka ábyrgð á maka okk­ar get­ur valdið álagi á kyn­lífið okk­ar. „Ef við byrj­um að ann­ast maka okk­ar, þá erum við þannig gerð af nátt­úr­unn­ar hendi að við hætt­um að hafa kyn­ferðis­leg­an áhuga á hon­um. Kyn­líf snýst um að langa í en ekki að ein­hver þurfi eitt­hvað frá þér.“

Hún gef­ur góð ráð til að auka spennu og gæði kyn­lífs í sam­bönd­um. „Ef maður lít­ur á fram­hjá­hald sem stund­um er notað sem krydd í kyn­líf þá tala þeir sem standa í fram­hjá­haldi gjarn­an um hversu mik­ill tími fer í slíkt og hversu mik­il spenna get­ur fylgt því. En ef fólk eyddi þeirri orku í sam­bandið sitt myndi það mögu­lega upp­skera eft­ir því í gæðum og ár­angri.“

Hvernig býr maður til spennu í hjóna­bönd­um? „Það er mis­jafnt á milli fólks. Sum­ir fara í íþrótt­ir og ná þannig upp hjart­slætti. Önnur pör ferðast sam­an, fá pöss­un og rækta hvort annað. Þú verður að vita hvað þér þykir áhuga­vert og gott til að geta leiðbeint öðrum um þig.“

Áslaug hvet­ur fólk til þess að leita sér aðstoðar áður en sam­bandið er komið á síðasta sölu­dag. „Nú er tími ferm­inga og þá sér maður hvernig góður und­ir­bún­ing­ur get­ur verið hjálp­leg­ur. Ferm­ing­ar­börn þurfa að ganga í heilt ár til prests og fá allskon­ar fræðslu tengda ferm­ing­unni. Ég spyr mig oft að því af hverju slík fræðsla sé ekki í boði fyr­ir þá sem eru að ganga í hjóna­band? Hjóna­nám­skeið eða sam­bands­ráðgjöf væri kjörið tæki­færi fyr­ir til­von­andi hjón eða nýgifta, því sam­kvæmt rann­sókn­um eru ákveðnir hlut­ir sem virka í sam­bönd­um og aðrir sem virka síður. Eitt viðtal í upp­hafi hjóna­bands gef­ur litla fræðslu fyr­ir fólk sem hef­ur áhuga á að láta hjóna­bandið sitt end­ast út æv­ina.“

Gott kyn­líf er skemmti­leg áskor­un

Áslaug seg­ir að það sé skemmti­leg áskor­un að eiga gott kyn­lífs­sam­band við maka sinn, og hún lík­ir þessu við að fara út að borða. „Ég segi oft við fólk að það sé ekk­ert mál að borða á sama veit­inga­húsi út æv­ina, en það þýði ekki að panta sér alltaf bara spa­gettí af mat­seðlin­um. Við verðum leið á því. Mann­skepn­an er mikið fyr­ir rútínu, og það á við um sam­bönd og kyn­líf eins og allt annað. Við þurf­um að vera vak­andi fyr­ir þessu,“ seg­ir hún og bæt­ir við: „Kyn­líf er ekki það sama og sam­far­ir. En sam­kvæmt rann­sókn sem gerð var árið 2010 þá talaði fólk um 41 at­höfn sem kyn­líf sam­kvæmt sín­um skiln­ingi.“

Hvað eiga hjón og samstarfsfélagar sameiginlegt?

test

Nýlega fór Standford háskóli í Bandaríkjunum að bjóða uppá viðskiptaáfanga þar sem lesefnið var bók sem fjallar um niðurstöður rannsókna á því hvernig hjónabönd virka. Aðaláherslan í þessum áfanga var á að nemendur lærðu góðar samskiptaleiðir til að láta fyrirtæki blómstra. Eðlilega má velta fyrir sér hvaða erindi bók um árangursrík hjónabönd eigi í viðskiptanámi? Svarið er að hjónabönd og gott samstarf þrífst á sömu samskiptareglunum. Prófessor við viðskiptadeild Harvard háskóla heldur því fram að 65% fyrirtækja fari í þrot vegna ágreinings eigendanna. Þörfin fyrir bætt samskipti á því jafnt við í vinnunni og heima.

Hvernig við stofnum til hjónabanda er oft keimlíkt því hvernig við stofnum fyrirtæki. Við hefjum samband eða samstarf með fólki sem við þekkjum lítið sem ekkert fyrir. Í upphafi erum við meðvituð um kosti þeirra sem við erum að byrja með og eigum það til að horfa framhjá göllunum. Það að við þekkjumst lítið í upphafi og erum óhóflega bjartsýn er þó sjaldnast valdur þess að sambönd eða fyrirtæki flosna upp. Vandinn er að það gleymist eða því er meðvitað sleppt að ræða hvernig skuli tekist á við ágreining. Fólki í viðskiptum líkt og ástarsamböndum skortir oft færni og þekkingu á árangursríkum leiðum til að leysa ágreining.

Hjónabönd eru flókin en samstarf er jafnvel enn flóknara. Ólíkt því sem gerist í hjónabandi þá þurfa samstarfsmenn að vinna saman til að heilla fjárfesta, halda utan um mannauðinn (sem er fullorðið fólk en ekki börn eigendanna), koma sér saman um markaðsmálin og ræða eða kynna sambandið opinberlega. Það skiptir öllu máli að samstarfið sé gott, því betra samstarf því meiri líkur á að fyrirtækið lifi af óhjákvæmilegar breytingar og erfiða tíma.

Það sem námskeið eða bækur um hvernig við látum hjónabönd ganga upp geta kennt okkur má því bersýnilega nota bæði heima og í vinnunni. Rannsóknir á hjónaböndum hafa kennt okkur að ákveðnar aðferðir virka vel til að láta hjónabönd dafna. Þessar aðferðir má líka nýta í viðskiptum.  

Tölum um erfiðu málin.

Líkt og nýir elskendur þá kýs samstarfsfólk í nýju fyrirtæki oftar en ekki að forðast óþægilegar samræður og koma sér undan ágreiningi. En vandinn er að erfið mál eiga það til að vaxa ef þau eru látin óáreitt. Það er því mikilvægt í upphafi að taka stöðuna reglulega á samstarfinu samhliða praktískum atriðum eins og rekstrinum. Forvarnir skila meiri árangri en að reyna laga eftir á.

Andstæður laða.

Í flestum fyrirtækjum (líkt og í nánum samböndum) er einhver sem þrýstir á það að stækka og breyta á meðan hinir hallast að því að vera varkárari. Öll sambönd sem eru lifandi og skemmtileg þurfa þessar andstæður öryggis og breytinga. Sá sem vill fara hratt kemur hugmyndum sínum á framfæri í öryggi þess að sá varkári komi hugmyndunum niður á jörðina. Endalaus stöðugleiki er leiðinlegur en of miklar breytingar þreyta okkur.

Þegar samstarfsfólk hættir að sjá andstæðurnar sem kosti súrnar samstarfið. Undir álagi riðlast jafnvægið á milli stöðugleika og breytinga og úr verður rifrildi. Þegar samstarfsfólk hættir að sjá hvernig andstæðurnar hjálpa fyrirtækinu fer það að hnýta í hvort annað.

Leysið ágreining eins og fullorðið fólk.

Það að vera ósammála öðrum er eðlilegt og ágreiningur er ekki alltaf vandamál. Það hvernig við tökum á ágreiningi getur hins vegar orðið að vandamáli. Ef við hunsum ágreiningsmál er næsta víst að þau verða að vandamáli, sem oft breytist í kala sem kemur út í ásökunum. Þá er hætta á að horft sé á samstarfið allt í gegnum neikvæð gleraugu. Fólk fer að gera ráð fyrir ásetningi og myndar orsakasamhengi þar sem það á ekki við. Neikvæðu gleraugun láta okkur sjá hlutina í skökku ljósi t.d. þegar vel gengur er það heppni, en þegar illa gengur er það vegna vanhæfni samstarfsmannanna.

Til þess að viðhalda góðu sambandi þurfum við að sýna virðingu, kunna að hlusta og að taka ábyrgð á því hvaða þátt við eigum í samstarfinu.

Góð sambönd, góðir samstarfsfélagar og góð viðskiptasambönd takast á við sömu hindranir og þau sambönd sem slitna eða jafnvel springa. Góðu samböndin snúast ekki um heppni eða rétta tímasetningu. Fólk sem er í farsælum samböndum, heima eða í vinnu, hefur lært og nýtir sér leiðir til að takast á við hindranir á annan hátt en fólk í samböndum sem enda í skilnaði eða eru leyst upp. Góð samskipti auka lífsgæði allra.

Áður birt á kjarninn.is