Samkvæmt Esther Perel, sambands- og kynlífsráðgjafa í New York þurfum við aðeins að kunna og nota 7 sagnir til að tala tungumál ástarinnar. Þessar 7 sagnir ástarinnar geta bætt núverandi sambönd eða aukið hæfni í framtíðarsamböndum. Hún heldur því fram að þessar sagnir geti umbreytt kynlífi fólks.
Það þarf ekki að æfa þær allar í einu, ég mæli með að fólk einbeiti sér fyrst að þeirri sem er erfiðust og æfi svo listann.
- Að biðja. Hvað þarftu? Getur þú beðið um það? Það er mun hjálplegra að biðja um það sem við viljum í stað þess að segja hvað við viljum ekki eða verða sár þegar þarfir okkar eru ekki uppfylltar.
- Að gefa. Getan til að gefa tengist því að geta stillt sig inná þarfir annarra. Að gefa er að láta öðrum líða vel, vera elskuð og sýnir að viðkomandi skiptir máli. Við gefum ekki til að fá eitthvað í staðinn. Gjöf fylja engar kvaðir.
- Að þiggja. Ef þú átt erfitt með að þiggja – hrós, gjöf eða góðvild – þá þarftu að æfa þessa sögn. Það að þiggja byggir á því að maður treysti því að gefandanum þyki vænt um mann eins og maður er. Það að þiggja reynist mörgum erfitt í kynlífi.
- Að taka. Karlmönnum er kennt að taka það sem þeir þurfa, að vera ákveðnir. En konum er kennt að taka það sem þeim er rétt. Það virkar ekki vel í kynlífi. Það að taka það sem maður þarf er ólíkt ágangi. Að taka í kynlífi þýðir ekki valdníðslu. Taktu þinn tíma, taktu þitt pláss. Að taka og að biðja eru nágrannar sem vinna vel saman.
- Að leika sér. Það að hafa gaman og leika sér saman er mikilvægt fyrir pör. Frá því við fæðumst tengjumst við fólki í gengum leik. Leikur er stór partur af kynlíf – til að halda því áhugaverðu þurfum við að geta leikið okkur og verið óútreiknanleg.
- Að deila. Það að deila með öðrum er að gera eitthvað saman. Það að deila er að eiga hluta af einhverju með öðrum. Hvernig er það að deila ólíkt því að gefa í þínum huga? Hverju gætir þú deilt sem myndi tengja þig öðrum?
- Að hafna. Það er mikilvægt að læra að segja nei án þess að makinn upplifi höfnun. Með því að læra að segja nei, lærum við að setja mörk í sambandinu. Stundum þýðir nei bara núna, stundum er það nei við ákveðnum aðferðum. En það er mikilvægt að vita í sambandi hvað er ekki í boði. Ef við höfum ekki frelsi til að segja nei, höfum við ekki leyfi til að segja já.