Fótbolti og kynlíf

test

Sérfræðingur í fótbolta og ráðgjafi í sjónvarpinu talaði um það að árangur íslenska landsliðsins í fótbolta undanfarin ár væri að hluta að þakka stórkostlegum fyrirliða liðsins. “Við höfum aldrei átt fyrirliða sem hefur haldið liðinu svona vel sama og þegar hann er ekki með þeim á vellinum gengur þeim verr” sagði hann.

Þessi setning hafði mikinn samhljóm við það sem ég sé ítrekað í minni vinnu. Ég ræði oft við pör um fyrirliðahlutverk í parsambandi og hversu mikið er undir ef hann er ekki inni á vellinum. Þá verður parið oftar en ekki sundurleit heild sem vinnur ekki leikinn.

Í hverjum mánuði hitti ég mikið af fólki sem er alveg búið á því og segist eiga litla sem enga orku eftir. Sjaldnast er það þó þannig að fólkið hafi enga orku, það hefur nóg af orku og ást en hún fer öll í börnin. Börnin fá athyglina, eru miðpunkturinn, það er leikið við þau, þau upplifa forvitnina og nýju upplifanirnar eru þeirra. Parið hins vegar nær varla andanum, höfuðið er alltaf undir vatni í umönnun barnanna.

En líkt og í fótbolta þarf gott lið að hafa liðstjóra og fyrirliða.

Liðstjórinn heldur utan um liðið. Hann er í undirbúningsvinnu fyrir mótin og í vinnu allan mótstímann og ber ábyrgð á að liðinu skorti ekki neitt. Allir leikmenn fái búninga og hreina sokka.  

Að sama skapi er foreldri A í foreldrapari liðstjóri fjölskyldunnar. Hann sér um að kaupa pollagalla, stígvél, útbúa nesti og þar fram eftir götunum. En í fótbolta fær einn leikmaður það hlutverk að vera fyrirliði. Hann heldur liðinu saman, dregur fram það besta í hverjum leikmanni og leyfir þeim að sýna sínar bestu hliðar. Í samböndum hins vegar gleymist stundum að útnefna fyrirliða, sem væri foreldri B í parinu. Fyrirliðinn sér um að halda parinu saman, að það fái að njóta sín og sýna sínar bestu hliðar sem maki eða manneskja en ekki sem foreldri.

Það vill því miður oft verða þannig að foreldri B sem reynir að halda á lofti fyrirliðahlutverkinu fær litlar þakkir fyrir og jafnvel skammir fyrir það. Það birtist svona: foreldri A er uppgefið eftir undirbúning og umönnun liðsins þegar foreldri B reynir að minna á hlutverk sitt með viðreynslu. Viðkvæðið er þá “ertu galin að halda að ég geti farið að stunda kynlíf núna? Veistu hvað ég er búin að vera gera fyrir heimilið, börnin, fjölskylduna?”. Liðstjórinn sér ekki hvert hlutverk fyrirliðans er sem er að reyna að standa vörð um sambandið og kynlífið á meðan liðstjórinn er upptekinn við annað.

Hvað er til ráða fyrir þessi pör? Það fyrsta sem þarf að gera er að útdeila hlutverkum og ræða svo viðhorf parsins til þeirra. Það er árangursríkast að byrja á því að breyta hugsunum okkar til þess að geta breytt hegðuninni. Það er flóknara að reyna að breyta hegðun innan gamla rammans. Annað foreldrið í parinu fær hlutverk liðstjóra og hitt fær hlutverk fyrirliða. Þetta eru líklega hlutverk sem hafa verið til staðar en ekki verið opinber. Það getur því stundum verið erfitt að halda áfram hlutverkinu sem er að sliga mann. En þegar við förum að hugsa um þau á nýjan hátt breytist oft margt. Þannig getur orðið breyting á því hvernig við sjáum hlutverkin og parið fer að takast á við lífið saman. Sem eitt lið. Þegar makinn sem er fyrirliði sambandsins fer að reyna við þreyttan liðstjórann upplifir hann ekki að það sé verið að fara fram á meira, óska eftir meiri umönnun. Liðstjórinn getur leyft sér að horfa á viðreynsluna sem boð um að vera maki en ekki foreldri í ákveðin tíma. Fyrirliðinn í sambandinu sér sig ekki vera þann sem suðar og biður um heldur þann sem býður. Að sama skapi sér fyrirliðinn að það skiptir máli að það sé til staðar liðsstjóri fyrir fjölskylduna. Sá sem heldur utan um börnin. Því án þess væri engin fjölskylda. En án sambandsins væri heldur ekkert par.

Líkt og velgengi íslenska landsliðsins í fótbolta á HM 2018 veltur á því að liðstjórinn og fyrirliðinn geri liðinu kleyft að sýna sitt besta þá veltur velgengni fjölskyldunnar í nútímanum á því að pör rækti samband sitt. Ef parið er ekki ánægt verður engin fjölskylda. Fyrir langflest pör þá byggir hamingja þeirra að einhverju leiti á því að þau séu í góðu erótísku sambandi. Það er því mikilvægt að á löngum lista yfir það sem þarf að gera fyrir börnin sé að foreldrarnir eigi gott kynlíf.

Liðinu gengur betur þegar verkaskiptingin er klár, þá vita allir sitt hlutverk og geta spilað leikinn af öryggi. Þá eigum við jafnvel möguleika á að komast í heimsklassa.

 

Að gefa í eða bremsa

test

Rannsóknir á kynhegðun mannsins eru ekki alda gamlar. Kynfræði, fræðin um kynhegðun mannskepnunnar, er ung fræðigrein. Fyrstu rannsóknir kynfræðinga könnuðu hvað gerist líkamlega þegar við stundum kynlíf. Fólk var fengið til þess að koma á tilraunastofur og stunda sjálfsfróun eða kynlíf á meðan lífsmörk þess voru mæld. Þannig öðluðumst við skilning á kynsvörun. Þegar síðasta öld var að líða undir lok fóru kynfræðingar að rannsaka hvað veldur kynhegðun okkar, ekki hvernig hún lítur út á mælitækjum. Spurningin hvað kveikir löngun og hvað slekkur hana varð kveikjan að kenningu sem í dag er kölluð tvístjórnun (e. Dual control model).

Tvístjórnun kynhegðunar byggir á því að taugakerfið (heilinn og mænan) sé samsett úr mörgum pörum af bensíngjöfum og bremsum. Þetta þekkjum við út frá t.d. sympatíska og parasympatíska taugakerfinu. Hugmyndin sem kveikti kenninguna er að kynlíf hlýtur að lúta sömu taugafræðilegu lögmálum og annað í líkama og hegðun okkar. Niðurstaðan var því að við höfum bensíngjöf og bremsu sem stjórna kynlífi okkar.

Bensíngjöfin er ábyrg fyrir kynferðislegri örvun. Hún skannar umhverfið fyrir kynferðislega jákvæðum eða örvandi skilaboðum – hvað við sjáum, heyrum, finnum lykt af, skynjum í gegnum snertingu, bragð og ímyndun. Þegar hún skynjar kynferðislega jákvæð skilaboð segir hún heilanum að gefa í og kveikja á kynferðislegri löngun og örvun. Bensíngjöfin er stöðugt að skanna umhverfi okkar (líka hugsanir og tilfinningar) fyrir kynferðislega viðeigandi og jákvæðum skilaboðum. Hún hættir aldrei störfum þó við séum alls ekki alltaf meðvituð um hana. Hún virkar eins og annað sem taugakerfið stjórnar, s.s öndun og meltingu. Við erum ekki meðvituð um þessa starfsemi fyrr en búið er að ræsa kerfið t.d. þegar maginn tæmist verðum við svöng. Viðeigandi skilaboð kalla á viðeigandi svar.

Bremsan sér um að hemja kynsvörun og hegðun. Þessar hömlur sem hún setur hafa ekkert með feimni að gera. Þetta er bara taugafræðilegt svar um að slökkva á kynferðislegri örvun. Til þess að flækja málin aðeins sýndu rannsóknir á tvískiptingunni að bremsurnar eru tvær. Eins og í góðum bíl þarf fót- og handbremsu, sama á við um kynörvun. Fótbremsan virkar eins og bensíngjöfin, hún er alltaf að skanna umhverfið fyrir hættum – það sem við sjáum, heyrum, finnum lykt af, skynjum í gegnum snertingu, bragð og ímyndun. Neikvæð eða hættu skilaboð segja heilanum að slökkva á kynlöngun og örvun. Fótbremsan ber þannig ábyrgð á því að við verðum ekki örvuð á óviðeigandi stöðum t.d. þegar við erum að halda fyrirlestur eða í fjölskylduboði. Fótbremsan er að verkum þegar öll örvun stoppar í skyndi þegar mamma opnar hurðina þrátt fyrir að kynferðisleg hegðun sé hafin. Handbremsan hins vegar virkar líkt og stöðug en veikari bremsa. Hún sendir skilaboðin nei, takk samt.

Bremsurnar þjóna ólíkum tilgangi. Fótbremsan stjórnast af ótta við afleiðingar, en handbremsan af ótti um frammistöðu. Í dag vinnum við eins með báðar þessar bremsur þegar við viljum ná betri stjórn á kynlöngun eða svörun. Það virðist ekki skipta máli hvor bremsan er að verki. Hver veit hvort að framtíðin beri það í skauti sér að við getum greint þessar bremsur betur í sundur og aðlagað ráðleggingar eða jafnvel lyfjameðferð að annarri hvorri. Verkefni fólks er núna að finna hvað bremsar hjá mér og hvað geri ég til þess að slökkva á löngun eða hegðun. Þegar hver og einn hefur fundið það út fyrir sig þá má ná betri stjórn.

 

Þessi tvístjórnun er ekki flókin í sjálfu sér en betri skilningur á því hvernig við virkum getur haft verulegar afleiðingar. Kynlíf snýst um að það sé jafnvægi á milli bensínsgjafarinnar og bremsanna. Þegar svo er gengur allt smurt.

 

Pistill birtist fyrst í Mannlífi sem kom út 26. janúar og síðar á Kjarninn.is

Áramótaheit – nógu gott kynlíf

test

Í upphafi árs hafa margir strengt áramótaheit. Nýtt ár er nýtt upphaf. Við erum árinu eldri og vitrari ef allt er eins og best verður á kosið. Það er gott að setja sér markmið en mikilvægara er að þau séu raunhæf og gerð til þess að auðga líf okkar. Því langar mig nú í upphafi árs að kynna fyrir ykkur hugmyndina um nógu gott kynlíf sem Metz og McCarthy kynntu fyrst árið 2003. Ég tel að það sé raunhæft markmið að eiga nógu gott kynlíf. Ég held líka að það auki á ánægju okkar og auðgi kynlífið ef við stillum væntingar okkar í takt við raunveruleikann. Það er vont að vera alltaf undir væntingum vegna þess eins að maður er að spila eftir vitlausum leikreglum. Gott kynlíf snýst um væntingastjórnun eins og annað í lífinu. Setja markið ekki of hátt og ekki of lágt. Bara nógu rétt.

 

Hugmyndin að nógu góðu kynlífi er fengin úr uppeldisfræðum. Þar hófst sú vegferð að foreldrar þyrftu bara að vera nógu góðir foreldrar, ekki fullkomnir. Í kröfuhörðu samfélagi höfum við farið úr því að vera ánægð með nógu gott yfir í að stefna alltaf á fullkomnun. Þetta hefur neikvæð áhrif á kynlíf okkar líkt og annað í lífinu. Sökum oft á tíðum lítillar kynfræðslu fáum við ofgnótt af röngum upplýsingum um hvernig kynlíf okkar eigi að vera þar sem fókusinn er á frammistöðuna. Það snýst allt um skiptin, hversu oft og hversu lengi. Við verðum því mjög samfaramiðuð og fullnægingamiðuð. Við festumst oftar en ekki í því að telja samfarir eða fullnægingar og nota fjölda þeirra sem mælikvarða þess hversu góðu kynlífi við lifum. Þetta getur orðið til þess að til verður nokkurs konar náð eða fallið listi í huga margra. Hugmyndafræðin á bakvið nógu gott kynlíf setur mælikvarðann og athygli okkar ekki á slíkt frammistöðumati. Þar er augum okkar frekar beint að löngun og ánægju í kynlífinu. Einn af þáttum nógu góðs kynlífs er að rétta af hugsun okkar um frammistöðu. Ráðlagt er að hætta að gera ráð fyrir því að allt kynlíf endi í samförum í mun raunhæfara mat að um 85% kynlífs leiði til samfara. Þetta er í samræmi við rannsóknarniðurstöður sem segja okkur að hamingjusamt fólk sem stundar reglulega kynlíf upplifi kynlífið mjög gott í 20-25% tilfella. Kynlífið er gott í 40-60% tilvika og undir meðaltali í rest. Þessar niðurstöður styðja hugmyndina að ánægt fólk kunni að meta að gæði kynlífs séu breytileg og langt frá því að vera fullkomið kynlíf í hvert skipti. Fólk lærir að í þau skipti sem kynlífið leiðir ekki til samfara fer parið yfir í kynlífsathafnir án samfara eða í munúðarfullar athafnir sem eru ekki kynferðislegar s.s. knúsast. Slagorð nógu góðs kynlífs er því löngun, ánægja, erótík og sátt í heilbrigðu kynlífi.

 

Þegar unnið er eftir nógu góðu kynlífi hugmyndinni þá er áhersla á núvitund (e. mindfulness) og fræðslu um hvernig megi breyta hugmyndum okkar um kynlíf. Núvitund í kynlífi snýst um að vera andlega, líkamlega og tilfinningalega í núinu í allri kynferðislegri skynjun. Það snýst líka um að vera ábyrgur fyrir eigin löngun, ánægju og getu, í bland við að vera meðvitaður hluti af kynlífsteymi. Partur af fræðslunni í nógu gott kynlíf hugmyndafræðinni eru heimaæfingar. Fyrst er parið beðið um að finna sér “traust” stellingu. Parið finnur sér þá stellingu til að vera í t.d. í örmum hvors annars. Í þessari trausts stellingu er ekki ætlast til að fólk verði örvað eða að það skili einhverri kynferðislegri frammistöðu. Önnur æfing er að kynlífsráðgjafinn leggur til að fólk skiptist á að eiga frumkvæði að kynlífi eftir þeirra höfði. Annað býr til erótíska athöfn í huga sér sem síðan er leikin eftir með maka. Báðir aðilar nota þá núvitund til að njóta og vera í núinu. Í núvitund nær fólk að forðast að dæma athöfnina sem makinn býður uppá. Hins vegar ef eitthvað í athöfninni fer yfir mörk viðkomandi er ekki ætlast til þess að maki sætti sig við það. Þá er nándin og traustið úr fyrri æfingu notað til að tjá mörk sín. Markmiðið með þessum erótísku athöfnum er að deila ánægju og erótík í stað þess að hafa augun á eigin frammistöðu og getu.

 

Þessi hugmynd um nógu gott kynlíf er ekki alltaf auðveld í sölu. Það þarf að kenna fólki að láta af gömlum vana og hugsunarhætti fyrir nýjan. Fyrir karlmenn er þetta oftar en ekki mikil áskorun því hugmyndin snýst um að minnka áhersluna á frammistöðu þeirra; risið og fullnæginguna. Karlmenn eru stöðugt minntir á það að þetta séu þættir sem skipti sköpum fyrir gott kynlíf. Það er alveg sama hversu oft er sagt að stærðin skipti minna máli en að vita hvað maður gerir. Karlmenn halda áfram að mæla og meta sig út frá kynfærum sínum. Það þarf þjóðarátak til þess að breyta hugsunarhætti okkar um kynheilbrigði karlmanna. Áskorunin í nógu góðu kynlífi fyrir konur er hins vegar að taka ábyrgð á eigin kynheilbrigði. Konum er leynt og ljóst kennt að þær beri ekki ábyrgð á ánægju eða löngun sinni. Konur eru enn mynntar á að kynlíf sé hjónabandsskylda og það eru aðrir en þær sjálfar sem láta konur fá fullnægingu. Eins og það sé ekki á þeirra valdi að njóta og stjórna. Konur þurfa þess vegna að læra að taka ábyrgð á kynverunni í sér.

 

Áramótaheitið um kynlífið fyrir árið 2018 ætti því að vera raunhæfar væntingar í takt við aldur. Slökun og að vera í núinu er nauðsynlegt til að njóta kynlífs og ánægjan er jafn háttsett og frammistaðan. Þetta heit skapar fullnægjandi kynlíf sem er nógu gott.

Áður birt í MAN 2017.

Tungumál ástarinnar er 7 sagnorð

test

Samkvæmt Esther Perel, sambands- og kynlífsráðgjafa í New York þurfum við aðeins að kunna og nota 7 sagnir til að tala tungumál ástarinnar. Þessar 7 sagnir ástarinnar geta bætt núverandi sambönd eða aukið hæfni í framtíðarsamböndum. Hún heldur því fram að þessar sagnir geti umbreytt kynlífi fólks.

Það þarf ekki að æfa þær allar í einu, ég mæli með að fólk einbeiti sér fyrst að þeirri sem er erfiðust og æfi svo listann.

 

  1. Að biðja. Hvað þarftu? Getur þú beðið um það? Það er mun hjálplegra að biðja um það sem við viljum í stað þess að segja hvað við viljum ekki eða verða sár þegar þarfir okkar eru ekki uppfylltar.
  2. Að gefa. Getan til að gefa tengist því að geta stillt sig inná þarfir annarra. Að gefa er að láta öðrum líða vel, vera elskuð og sýnir að viðkomandi skiptir máli. Við gefum ekki til að fá eitthvað í staðinn. Gjöf fylja engar kvaðir.
  3. Að þiggja. Ef þú átt erfitt með að þiggja – hrós, gjöf eða góðvild – þá þarftu að æfa þessa sögn. Það að þiggja byggir á því að maður treysti því að gefandanum þyki vænt um mann eins og maður er. Það að þiggja reynist mörgum erfitt í kynlífi.
  4. Að taka. Karlmönnum er kennt að taka það sem þeir þurfa, að vera ákveðnir. En konum er kennt að taka það sem þeim er rétt. Það virkar ekki vel í kynlífi. Það að taka það sem maður þarf er ólíkt ágangi. Að taka í kynlífi þýðir ekki valdníðslu. Taktu þinn tíma, taktu þitt pláss. Að taka og að biðja eru nágrannar sem vinna vel saman.
  5. Að leika sér. Það að hafa gaman og leika sér saman er mikilvægt fyrir pör. Frá því við fæðumst tengjumst við fólki í gengum leik. Leikur er stór partur af kynlíf – til að halda því áhugaverðu þurfum við að geta leikið okkur og verið óútreiknanleg.
  6. Að deila. Það að deila með öðrum er að gera eitthvað saman. Það að deila er að eiga hluta af einhverju með öðrum. Hvernig er það að deila ólíkt því að gefa í þínum huga? Hverju gætir þú deilt sem myndi tengja þig öðrum?
  7. Að hafna. Það er mikilvægt að læra að segja nei án þess að makinn upplifi höfnun. Með því að læra að segja nei, lærum við að setja mörk í sambandinu. Stundum þýðir nei bara núna, stundum er það nei við ákveðnum aðferðum. En það er mikilvægt að vita í sambandi hvað er ekki í boði. Ef við höfum ekki frelsi til að segja nei, höfum við ekki leyfi til að segja já.