Hér má horfa á myndband af spjalli okkar Jónu Hrannar Bolladóttur prests í Vídalínskirkju um kynlíf í samböndum.
Fór 1. mars í viðtal hjá Músli á útvarpsstöðinni 101 og ræddi um kynlífsráðgjöf. Hér má hlusta á viðtalið.
Fótbolti og kynlíf
test
Sérfræðingur í fótbolta og ráðgjafi í sjónvarpinu talaði um það að árangur íslenska landsliðsins í fótbolta undanfarin ár væri að hluta að þakka stórkostlegum fyrirliða liðsins. “Við höfum aldrei átt fyrirliða sem hefur haldið liðinu svona vel sama og þegar hann er ekki með þeim á vellinum gengur þeim verr” sagði hann.
Þessi setning hafði mikinn samhljóm við það sem ég sé ítrekað í minni vinnu. Ég ræði oft við pör um fyrirliðahlutverk í parsambandi og hversu mikið er undir ef hann er ekki inni á vellinum. Þá verður parið oftar en ekki sundurleit heild sem vinnur ekki leikinn.
Í hverjum mánuði hitti ég mikið af fólki sem er alveg búið á því og segist eiga litla sem enga orku eftir. Sjaldnast er það þó þannig að fólkið hafi enga orku, það hefur nóg af orku og ást en hún fer öll í börnin. Börnin fá athyglina, eru miðpunkturinn, það er leikið við þau, þau upplifa forvitnina og nýju upplifanirnar eru þeirra. Parið hins vegar nær varla andanum, höfuðið er alltaf undir vatni í umönnun barnanna.
En líkt og í fótbolta þarf gott lið að hafa liðstjóra og fyrirliða.
Liðstjórinn heldur utan um liðið. Hann er í undirbúningsvinnu fyrir mótin og í vinnu allan mótstímann og ber ábyrgð á að liðinu skorti ekki neitt. Allir leikmenn fái búninga og hreina sokka.
Að sama skapi er foreldri A í foreldrapari liðstjóri fjölskyldunnar. Hann sér um að kaupa pollagalla, stígvél, útbúa nesti og þar fram eftir götunum. En í fótbolta fær einn leikmaður það hlutverk að vera fyrirliði. Hann heldur liðinu saman, dregur fram það besta í hverjum leikmanni og leyfir þeim að sýna sínar bestu hliðar. Í samböndum hins vegar gleymist stundum að útnefna fyrirliða, sem væri foreldri B í parinu. Fyrirliðinn sér um að halda parinu saman, að það fái að njóta sín og sýna sínar bestu hliðar sem maki eða manneskja en ekki sem foreldri.
Það vill því miður oft verða þannig að foreldri B sem reynir að halda á lofti fyrirliðahlutverkinu fær litlar þakkir fyrir og jafnvel skammir fyrir það. Það birtist svona: foreldri A er uppgefið eftir undirbúning og umönnun liðsins þegar foreldri B reynir að minna á hlutverk sitt með viðreynslu. Viðkvæðið er þá “ertu galin að halda að ég geti farið að stunda kynlíf núna? Veistu hvað ég er búin að vera gera fyrir heimilið, börnin, fjölskylduna?”. Liðstjórinn sér ekki hvert hlutverk fyrirliðans er sem er að reyna að standa vörð um sambandið og kynlífið á meðan liðstjórinn er upptekinn við annað.
Hvað er til ráða fyrir þessi pör? Það fyrsta sem þarf að gera er að útdeila hlutverkum og ræða svo viðhorf parsins til þeirra. Það er árangursríkast að byrja á því að breyta hugsunum okkar til þess að geta breytt hegðuninni. Það er flóknara að reyna að breyta hegðun innan gamla rammans. Annað foreldrið í parinu fær hlutverk liðstjóra og hitt fær hlutverk fyrirliða. Þetta eru líklega hlutverk sem hafa verið til staðar en ekki verið opinber. Það getur því stundum verið erfitt að halda áfram hlutverkinu sem er að sliga mann. En þegar við förum að hugsa um þau á nýjan hátt breytist oft margt. Þannig getur orðið breyting á því hvernig við sjáum hlutverkin og parið fer að takast á við lífið saman. Sem eitt lið. Þegar makinn sem er fyrirliði sambandsins fer að reyna við þreyttan liðstjórann upplifir hann ekki að það sé verið að fara fram á meira, óska eftir meiri umönnun. Liðstjórinn getur leyft sér að horfa á viðreynsluna sem boð um að vera maki en ekki foreldri í ákveðin tíma. Fyrirliðinn í sambandinu sér sig ekki vera þann sem suðar og biður um heldur þann sem býður. Að sama skapi sér fyrirliðinn að það skiptir máli að það sé til staðar liðsstjóri fyrir fjölskylduna. Sá sem heldur utan um börnin. Því án þess væri engin fjölskylda. En án sambandsins væri heldur ekkert par.
Líkt og velgengi íslenska landsliðsins í fótbolta á HM 2018 veltur á því að liðstjórinn og fyrirliðinn geri liðinu kleyft að sýna sitt besta þá veltur velgengni fjölskyldunnar í nútímanum á því að pör rækti samband sitt. Ef parið er ekki ánægt verður engin fjölskylda. Fyrir langflest pör þá byggir hamingja þeirra að einhverju leiti á því að þau séu í góðu erótísku sambandi. Það er því mikilvægt að á löngum lista yfir það sem þarf að gera fyrir börnin sé að foreldrarnir eigi gott kynlíf.
Liðinu gengur betur þegar verkaskiptingin er klár, þá vita allir sitt hlutverk og geta spilað leikinn af öryggi. Þá eigum við jafnvel möguleika á að komast í heimsklassa.
Hjólreiðar og kynlíf
test
Til þess að geta stundað kynlíf og notið þess þarf heilbrigðan líkama. Líffæri sem virka eins og þau eiga að gera, nokkuð heila líkamsparta og huga sem er fær um kynferðislegar hugsanir. Það segir sig því sjálft að ef við viljum halda í kynlífsgetu okkar þá þurfum við að hugsa vel um líkamann. Okkur er ráðlagt að hreyfa okkur reglulega, þrjátíu mínútur á dag gera gæfumuninn.
Undanfarin ár hef ég tekið eftir því að samlandar mínir hafa farið að hreyfa sig meira utandyra. Það rann á okkur hlaupaæði fyrir um tíu árum, nú eru það hjólreiðar. Ég sé hjólandi fólk um allan bæ, stundum í tilheyrandi hjólafatnaði og stundum með allt sitt óvarið. Þessi auking, að mínu mati að minnsta kosti, er án efa góð fyrir heilbrigði okkar. Því er jafnvel haldið fram að hjólreiðar séu allra meina bót. Þær eru góðar fyrir stoðkerfið, til dæmis fara þær betur með hnén en hlaupin. Þær styrkja stóru vöðva líkamans, auka þol og líkt og önnur hreyfing auka framleiðslu gleðihormóna. Þær minnka mengun og spara peninga í samgöngukostnaði. En þær eiga sér dekkri hlið sem við heyrum lítið um.
Hjólreiðar geta nefnilega verið hættulegar kynlífi okkar.
Þegar kemur að kynheilbrigði okkar skiptir máli hvaða hreyfing verður fyrir valinu og hvaða búnað við notum til að verja okkur. Hjólreiðar geta valdið doða og jafnvel taugaskaða í kynfærum karla og kvenna. Þetta skýrist af því að þegar við sitjum á hjóli leggst þungi okkar á spöngina en ekki rassinn eins og þegar við sitjum á stól. Þetta á sérstaklega við ef setið er á mjóum hnakki á hrútastýrishjóli. Setbeinin eru til þess hönnuð að taka þunga líkamans á sig þegar við sitjum en spöngin ekki. Spöngin er svæðið á milli endaþarms og kynfæra. Í spönginni á karlmönnum er sá hluti limsins sem er innvortis, þegar þeir sitja á spönginni sitja þeir því beinlínis á typpinu á sér. Í spönginni eru æðar og taugar sem sjá kynfærunum fyrir blóði og tilfinningum. Ef við þrýstum á spöngina getum við heft blóðflæði til kynfæranna og valdið doða. Langvarandi þrýstingur getur valdið varanlegum skaða sem lýsir sér í ristruflunum og skertri tilfinningu í sníp og skaparbörmum. Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem hjólar mikið er líklegra til að finna fyrir doða í kynfærum sem getur leitt til kynlífsvanda en samanburðarhópur. Margt hjólafólk kannast við tímabundin doða í kynfærum eftir lengri hjólaferðir og getur hann verið fyrirvari langvarandi skaða.
Þessar hvimleiðu afleiðingar af hjólreiðum eiga þó líklega ekki við um hinn almenna hjólara sem hjólar um helgar sér til heilsubótar með réttum hjólabúnaði. Það er því ekki ástæða til að hætta að hjóla í hófi af ótta við að missa kyngetuna en hafa þarf í huga hvernig má njóta hjólreiða í sumarveðri og kynlífs á björtum nóttum.
Mig langar því að gefa lesendum góð ráð til að minnka hættuna á kynlífstengdum aukaverkunum af hjólareiðum. Val á hnakk er lykilatriði. Veldu breiðan hnakk, helst vel bólstraðan. Gelfyllt sæti með dempurum taka álag af spönginni. Einnig hefur reynst vel að nota hnakk sem er “neflaus” (e. noseless saddle). Á slíkum hnakki situr hjólarinn á setbeinunum en ekki á hnakknefinu. Þegar lögreglumenn í Seattle í Bandaríkjunum sem fara allra sinna ferða á hjóli skiptu úr venjulegum hnökkum yfir í neflausa hnakka minnkaði álag á spöngina verulega. Sýnt var fram á aukna risgetu með næturmælingum á risi eftir að skipt var um hnakka. Þessir hnakkar hafa þó ekki náð miklum vinsældum hjá hjólreiðafólki. Sætið þarf líka að stylla rétt, hnakkurinn má ekki vísa upp, sú staða eykur þrýsting á spöngina. Hæðin á hnakknum er annað atriði. Hann þarf að vera í réttri hæð. Fótleggurinn má ekki vera alveg beinn þegar petalinn er í lægstu stöðu. Til að verja sig enn fremur fyrir álagi á spöngina er gott að klæðast hjólabuxum með rasspúðum. Stilla þarf stýrið þannig að setið sé eins upprétt og hægt er. Það að halla sér fram á hjólinu og hafa hendur fyrir neðan mjaðmir veldur meiri þrýstingi á spöngina og þar af leiðandi minnkar blóðflæði til kynfæra. Að lokum er tilvalið að skiptu um stellingu á hjólinu og taka sér pásu á löngum hjólaferðum.
Ég mæli því með því að fólk njóti sumarsins á hjólinu sínu, hugi að búnaðinum og fái jafnvel hjólasérfræðinga í hjólabúðum til að aðstoða sig með stillingar á hjólinu. Ef þú finnur hins vegar doða í kynfærum farðu þá af hjólinu.
Áður birt í tímaritinu MAN
Hér má lesa viðtal sem birtist í Brúðarblaði Morgunblaðsins 2018. Einnig má lesa það hér fyrir neðan.
Áslaug Kristjánsdóttir starfar sem kynlífsráðgjafi á Domus Mentis, Geðheilsustöð. Hún segir að í aðdraganda giftinga þegar undirbúningurinn er í hámarki ættu brúðhjón að gera með sér samning um hvernig kynlífs þau vilja njóta í lífinu.
Brúðkaup eru oftar en ekki haldin með pomp og prakt. Undirbúningurinn er talsverður enda hafa brúðhjónin í ýmsu að snúast. „Að mínu mati er mikilvægt á þessum tímamótum að ræða um og jafnvel gera með sér samning um kynlífið í hjónabandinu. Margir eru með fjármálin á hreinu og gera jafnvel kaupmála fyrir brúðkaupið. Þau vita hvar þau ætla að búa, hvað þau langar í mörg börn og fleira. En oftar en ekki gleymist samningurinn um kynlífið,“ segir Áslaug og heldur áfram. „Spurningar eins og: Hvaða væntingar hefur þú til kynlífs í þessu hjónabandi? Hvernig ætlum við að hafa það næstu árin eða í framtíðinni? skipta máli að mínu mati,“ segir Áslaug.
Hún segir að samkvæmt rannsóknum virðist þetta málefni vera áskorun fyrir okkur öll.
„Rannsóknir sýna að við tölum ekki um kynlíf við þann sem við stundum kynlíf með. Í mínum huga er það fráleitt þar sem gott kynlíf snýst um samskipti, væntingastjórnun og samstillingu.“
Setjið ykkur markmið og farið eftir þeim
Áslaug mælir með að fólk setji sér markmið, fari eftir þeim og þannig sé hægt að mæla hvort það virki eða ekki. „Það er á okkar eigin ábyrgð að stunda gott kynlíf og að framfylgja samningum sem við gerum. Ég kalla alla til ábyrgðar fyrir sína eigin kynlífshamingju. Það ber enginn annar ábyrgð á því að ég fái eitthvað út úr kynlífinu.“
Að mati Áslaugar er slæm hugmynd að ákveða magn kynlífs. Hún setur gæðin umfram magnið og aðstoðar fólk við að tengjast og eignast náið samband.
„Kynlíf er einmitt það sem tengir okkur sem pör í samböndum, sem við eigum vanalega ekki við aðra utan sambands okkar.“
Hún segir mannfólkið ólíkt í eðli sínu og við höfum mismikla löngun í kynlíf. „Fólk þarf að velta fyrir sér hversu auðvelt það eigi með að framkalla kynlífslöngun hjá sér. Það þarf að velta fyrir sér hlutum eins og: Veit ég hvað ég vil yfir höfuð í kynlífinu mínu? Það langar engan í eitthvað sem er eins og skylda eða vinna innan sambandsins.“
Þegar kynlífið fjarar út í samböndum
Hvað gerir fólk sem er hætt að stunda kynlíf í samböndum? „Þegar kynlífið er staðnað leita þeir sem eru í góðum samböndum oft í kynlífsráðgjöf. Þessir einstaklingar hafa kannski ekki náð að viðhalda ástríðunni í sambandinu.“
Hún bendir á hvað það er miklu algengara að fólk ræði skuldbindingar sínar í samböndum heldur en ástríðu.
Jafnframt bendir Áslaug á þá spurningu: Hvernig getur þig langað í það sem þú átt nú þegar?
„Þarna erum við komin að erótík, spennu, eða einhverju nýju. Þegar ég veit allt um makann minn og er örugg með hann, þá getur hjálpað til í samböndum að gera eitthvað nýtt og spennandi.“
Hún segir að við lifum á tímum þar sem eðlilegt er að allt sé einnota. „Ef eitthvað bilar þá hendum við því til hliðar, við gerum ekki við hlutina í jafn miklum mæli og áður. Við jafnvel fáum okkur nýja hluti þó að þeir gömlu séu vel nothæfir.“
Hún segir að þrátt fyrir þetta sé yngra fólk viljugra að nýta sér kynlífs- eða sambandsráðgjöf en þeir eldri. „Líklega er það kynslóðamunur, hvenær þykir eðlilegt að leita sér aðstoðar sérfræðinga og hversu mikið við eigum bara að þjást í hljóði.“
Algengustu áskoranirnar í samböndum
Algengustu áskoranirnar að mati Áslaugar eru mismunandi áhugi á kynlífi í samböndum. Þegar annar aðilinn vill meira en hinn. Eins geta áskoranir falist í risvandamálum, sársauka við samfarir og fleira.
Þegar annar aðilinn eða báðir loka á kynlíf í samböndum geta alls konar hlutir verið upp á teningnum að hennar mati. „Stundum notum við þetta sem vopn, stundum til að stjórna. Ég mæli aldrei með því. Þar sem það er mjög eyðileggjandi fyrir samböndin okkar. Stundum erum við ekki að sinna samböndunum okkar. Við erum upptekin með margar skyldur, börn, foreldra, heimili og fleira svo kynlífið situr á hakanum.“
Til þess að fólk geti átt gott kynlíf þarf það að vera tilbúið að taka ábyrgð á sínu eigin kynlífi og breyta hugsun og hegðun sinni að mati Áslaugar. „Þeir sem eru viljugir að taka ráðleggingum og eru tilbúnir að taka á sig vinnuna upplifa hvað mestu breytingarnar.“
Áslaug talar um hvernig það að taka ábyrgð á maka okkar getur valdið álagi á kynlífið okkar. „Ef við byrjum að annast maka okkar, þá erum við þannig gerð af náttúrunnar hendi að við hættum að hafa kynferðislegan áhuga á honum. Kynlíf snýst um að langa í en ekki að einhver þurfi eitthvað frá þér.“
Hún gefur góð ráð til að auka spennu og gæði kynlífs í samböndum. „Ef maður lítur á framhjáhald sem stundum er notað sem krydd í kynlíf þá tala þeir sem standa í framhjáhaldi gjarnan um hversu mikill tími fer í slíkt og hversu mikil spenna getur fylgt því. En ef fólk eyddi þeirri orku í sambandið sitt myndi það mögulega uppskera eftir því í gæðum og árangri.“
Hvernig býr maður til spennu í hjónaböndum? „Það er misjafnt á milli fólks. Sumir fara í íþróttir og ná þannig upp hjartslætti. Önnur pör ferðast saman, fá pössun og rækta hvort annað. Þú verður að vita hvað þér þykir áhugavert og gott til að geta leiðbeint öðrum um þig.“
Áslaug hvetur fólk til þess að leita sér aðstoðar áður en sambandið er komið á síðasta söludag. „Nú er tími ferminga og þá sér maður hvernig góður undirbúningur getur verið hjálplegur. Fermingarbörn þurfa að ganga í heilt ár til prests og fá allskonar fræðslu tengda fermingunni. Ég spyr mig oft að því af hverju slík fræðsla sé ekki í boði fyrir þá sem eru að ganga í hjónaband? Hjónanámskeið eða sambandsráðgjöf væri kjörið tækifæri fyrir tilvonandi hjón eða nýgifta, því samkvæmt rannsóknum eru ákveðnir hlutir sem virka í samböndum og aðrir sem virka síður. Eitt viðtal í upphafi hjónabands gefur litla fræðslu fyrir fólk sem hefur áhuga á að láta hjónabandið sitt endast út ævina.“
Gott kynlíf er skemmtileg áskorun
Áslaug segir að það sé skemmtileg áskorun að eiga gott kynlífssamband við maka sinn, og hún líkir þessu við að fara út að borða. „Ég segi oft við fólk að það sé ekkert mál að borða á sama veitingahúsi út ævina, en það þýði ekki að panta sér alltaf bara spagettí af matseðlinum. Við verðum leið á því. Mannskepnan er mikið fyrir rútínu, og það á við um sambönd og kynlíf eins og allt annað. Við þurfum að vera vakandi fyrir þessu,“ segir hún og bætir við: „Kynlíf er ekki það sama og samfarir. En samkvæmt rannsókn sem gerð var árið 2010 þá talaði fólk um 41 athöfn sem kynlíf samkvæmt sínum skilningi.“
Í upphafi árs hafa margir strengt áramótaheit. Nýtt ár er nýtt upphaf. Við erum árinu eldri og vitrari ef allt er eins og best verður á kosið. Það er gott að setja sér markmið en mikilvægara er að þau séu raunhæf og gerð til þess að auðga líf okkar. Því langar mig nú í upphafi árs að kynna fyrir ykkur hugmyndina um nógu gott kynlíf sem Metz og McCarthy kynntu fyrst árið 2003. Ég tel að það sé raunhæft markmið að eiga nógu gott kynlíf. Ég held líka að það auki á ánægju okkar og auðgi kynlífið ef við stillum væntingar okkar í takt við raunveruleikann. Það er vont að vera alltaf undir væntingum vegna þess eins að maður er að spila eftir vitlausum leikreglum. Gott kynlíf snýst um væntingastjórnun eins og annað í lífinu. Setja markið ekki of hátt og ekki of lágt. Bara nógu rétt.
Hugmyndin að nógu góðu kynlífi er fengin úr uppeldisfræðum. Þar hófst sú vegferð að foreldrar þyrftu bara að vera nógu góðir foreldrar, ekki fullkomnir. Í kröfuhörðu samfélagi höfum við farið úr því að vera ánægð með nógu gott yfir í að stefna alltaf á fullkomnun. Þetta hefur neikvæð áhrif á kynlíf okkar líkt og annað í lífinu. Sökum oft á tíðum lítillar kynfræðslu fáum við ofgnótt af röngum upplýsingum um hvernig kynlíf okkar eigi að vera þar sem fókusinn er á frammistöðuna. Það snýst allt um skiptin, hversu oft og hversu lengi. Við verðum því mjög samfaramiðuð og fullnægingamiðuð. Við festumst oftar en ekki í því að telja samfarir eða fullnægingar og nota fjölda þeirra sem mælikvarða þess hversu góðu kynlífi við lifum. Þetta getur orðið til þess að til verður nokkurs konar náð eða fallið listi í huga margra. Hugmyndafræðin á bakvið nógu gott kynlíf setur mælikvarðann og athygli okkar ekki á slíkt frammistöðumati. Þar er augum okkar frekar beint að löngun og ánægju í kynlífinu. Einn af þáttum nógu góðs kynlífs er að rétta af hugsun okkar um frammistöðu. Ráðlagt er að hætta að gera ráð fyrir því að allt kynlíf endi í samförum í mun raunhæfara mat að um 85% kynlífs leiði til samfara. Þetta er í samræmi við rannsóknarniðurstöður sem segja okkur að hamingjusamt fólk sem stundar reglulega kynlíf upplifi kynlífið mjög gott í 20-25% tilfella. Kynlífið er gott í 40-60% tilvika og undir meðaltali í rest. Þessar niðurstöður styðja hugmyndina að ánægt fólk kunni að meta að gæði kynlífs séu breytileg og langt frá því að vera fullkomið kynlíf í hvert skipti. Fólk lærir að í þau skipti sem kynlífið leiðir ekki til samfara fer parið yfir í kynlífsathafnir án samfara eða í munúðarfullar athafnir sem eru ekki kynferðislegar s.s. knúsast. Slagorð nógu góðs kynlífs er því löngun, ánægja, erótík og sátt í heilbrigðu kynlífi.
Þegar unnið er eftir nógu góðu kynlífi hugmyndinni þá er áhersla á núvitund (e. mindfulness) og fræðslu um hvernig megi breyta hugmyndum okkar um kynlíf. Núvitund í kynlífi snýst um að vera andlega, líkamlega og tilfinningalega í núinu í allri kynferðislegri skynjun. Það snýst líka um að vera ábyrgur fyrir eigin löngun, ánægju og getu, í bland við að vera meðvitaður hluti af kynlífsteymi. Partur af fræðslunni í nógu gott kynlíf hugmyndafræðinni eru heimaæfingar. Fyrst er parið beðið um að finna sér “traust” stellingu. Parið finnur sér þá stellingu til að vera í t.d. í örmum hvors annars. Í þessari trausts stellingu er ekki ætlast til að fólk verði örvað eða að það skili einhverri kynferðislegri frammistöðu. Önnur æfing er að kynlífsráðgjafinn leggur til að fólk skiptist á að eiga frumkvæði að kynlífi eftir þeirra höfði. Annað býr til erótíska athöfn í huga sér sem síðan er leikin eftir með maka. Báðir aðilar nota þá núvitund til að njóta og vera í núinu. Í núvitund nær fólk að forðast að dæma athöfnina sem makinn býður uppá. Hins vegar ef eitthvað í athöfninni fer yfir mörk viðkomandi er ekki ætlast til þess að maki sætti sig við það. Þá er nándin og traustið úr fyrri æfingu notað til að tjá mörk sín. Markmiðið með þessum erótísku athöfnum er að deila ánægju og erótík í stað þess að hafa augun á eigin frammistöðu og getu.
Þessi hugmynd um nógu gott kynlíf er ekki alltaf auðveld í sölu. Það þarf að kenna fólki að láta af gömlum vana og hugsunarhætti fyrir nýjan. Fyrir karlmenn er þetta oftar en ekki mikil áskorun því hugmyndin snýst um að minnka áhersluna á frammistöðu þeirra; risið og fullnæginguna. Karlmenn eru stöðugt minntir á það að þetta séu þættir sem skipti sköpum fyrir gott kynlíf. Það er alveg sama hversu oft er sagt að stærðin skipti minna máli en að vita hvað maður gerir. Karlmenn halda áfram að mæla og meta sig út frá kynfærum sínum. Það þarf þjóðarátak til þess að breyta hugsunarhætti okkar um kynheilbrigði karlmanna. Áskorunin í nógu góðu kynlífi fyrir konur er hins vegar að taka ábyrgð á eigin kynheilbrigði. Konum er leynt og ljóst kennt að þær beri ekki ábyrgð á ánægju eða löngun sinni. Konur eru enn mynntar á að kynlíf sé hjónabandsskylda og það eru aðrir en þær sjálfar sem láta konur fá fullnægingu. Eins og það sé ekki á þeirra valdi að njóta og stjórna. Konur þurfa þess vegna að læra að taka ábyrgð á kynverunni í sér.
Áramótaheitið um kynlífið fyrir árið 2018 ætti því að vera raunhæfar væntingar í takt við aldur. Slökun og að vera í núinu er nauðsynlegt til að njóta kynlífs og ánægjan er jafn háttsett og frammistaðan. Þetta heit skapar fullnægjandi kynlíf sem er nógu gott.
Áður birt í MAN 2017.
Samkvæmt Esther Perel, sambands- og kynlífsráðgjafa í New York þurfum við aðeins að kunna og nota 7 sagnir til að tala tungumál ástarinnar. Þessar 7 sagnir ástarinnar geta bætt núverandi sambönd eða aukið hæfni í framtíðarsamböndum. Hún heldur því fram að þessar sagnir geti umbreytt kynlífi fólks.
Það þarf ekki að æfa þær allar í einu, ég mæli með að fólk einbeiti sér fyrst að þeirri sem er erfiðust og æfi svo listann.
- Að biðja. Hvað þarftu? Getur þú beðið um það? Það er mun hjálplegra að biðja um það sem við viljum í stað þess að segja hvað við viljum ekki eða verða sár þegar þarfir okkar eru ekki uppfylltar.
- Að gefa. Getan til að gefa tengist því að geta stillt sig inná þarfir annarra. Að gefa er að láta öðrum líða vel, vera elskuð og sýnir að viðkomandi skiptir máli. Við gefum ekki til að fá eitthvað í staðinn. Gjöf fylja engar kvaðir.
- Að þiggja. Ef þú átt erfitt með að þiggja – hrós, gjöf eða góðvild – þá þarftu að æfa þessa sögn. Það að þiggja byggir á því að maður treysti því að gefandanum þyki vænt um mann eins og maður er. Það að þiggja reynist mörgum erfitt í kynlífi.
- Að taka. Karlmönnum er kennt að taka það sem þeir þurfa, að vera ákveðnir. En konum er kennt að taka það sem þeim er rétt. Það virkar ekki vel í kynlífi. Það að taka það sem maður þarf er ólíkt ágangi. Að taka í kynlífi þýðir ekki valdníðslu. Taktu þinn tíma, taktu þitt pláss. Að taka og að biðja eru nágrannar sem vinna vel saman.
- Að leika sér. Það að hafa gaman og leika sér saman er mikilvægt fyrir pör. Frá því við fæðumst tengjumst við fólki í gengum leik. Leikur er stór partur af kynlíf – til að halda því áhugaverðu þurfum við að geta leikið okkur og verið óútreiknanleg.
- Að deila. Það að deila með öðrum er að gera eitthvað saman. Það að deila er að eiga hluta af einhverju með öðrum. Hvernig er það að deila ólíkt því að gefa í þínum huga? Hverju gætir þú deilt sem myndi tengja þig öðrum?
- Að hafna. Það er mikilvægt að læra að segja nei án þess að makinn upplifi höfnun. Með því að læra að segja nei, lærum við að setja mörk í sambandinu. Stundum þýðir nei bara núna, stundum er það nei við ákveðnum aðferðum. En það er mikilvægt að vita í sambandi hvað er ekki í boði. Ef við höfum ekki frelsi til að segja nei, höfum við ekki leyfi til að segja já.