Við þekkjum öll sögur af hæfileikaríkum elskhugum. Elskhugum sem virðast kunna listina að elskast betur en aðrir. Þeir voru fæddir í þetta hlutverk. Þessar sögur eru yfirleitt skáldskapur og skildi engan undra. Þeir sem vinna með pörum og í kringum kynlíf vita að hæfileikaríkir elskhugar fæddust ekki þannig þeir lærðu þetta. Maður þarf ekki einu sinni að vera kynfræðingur til þess að vita þetta. En það góða er að það er aldrei of seint að læra að lifa mögnuðu kynlífi og auka þannig lífsgæði sín.
Árangursrík samskipti eru afar mikilvægur þáttur í líflegu erótísku sambandi. Þegar parið getur tjáð vilja sinn og langanir opinskátt græða allir. Margt fólk á hins vegar afar erfitt með að biðja um það sem það vill og langar í kynlífi. Ein ástæða gæti verið ótti við að særa maka eða ótti við höfnun. Það er því auðveldara að sætta sig við það sem er í boði en að biðja um annað eða meira. Önnur ástæða er að bæði karlar og konur, þvert á allar hneigðir, fellur fyrir þeirri mýtu að trúa því að ef við ræðum um aðferðir og hvað við viljum þá þýði það að kynferðislega pössum við ekki nógu vel saman. Kynlífið ætti allt að koma af sjálfu sér ef tengingin er rétt eða náttúruleg.
Þessa mýtu þarf að tækla. Er ekki líklegra að ef þú getur talað um það sem þú vilt og hvernig þú vilt það, að það sé merki um góða tengingu og að þið náið að passa vel saman kynferðislega.
“Great lovers aren’t born, they’re made” Peggy J. Kleinplatz, sálfræðingur og kynlífsráðgjafi.
Hér eru tvær leiðir sem gott er að tileinka sér og byrja að nota strax:
Talaðu um hvað þú vilt og langanir þínar fyrir og eftir kynlíf, ekki bara á meðan þú stundar kynlíf
Beiðni sem sett er fram þegar báðir aðilar eru berskjaldaðir (jafnvel berrassaðir) er auðvelt að túlka sem leiðbeiningar og upplifa að maður glími við vankunnáttu í kynlífi. Þegar við erum berskjölduð upplifum við oft á tíðum beiðni sem árás á okkar eigið ágæti. Einnig þegar við erum kynferðislega ófullnægð eigum við það til að vera pirruð, óþolinmóð og í árásarham. Í stað þess að segja “ég vil gjarnan fá meiri strokur” segjum við “afhverju ræðstu alltaf beint á klofið á mér?” eða “þú kyssir mig aldrei”. Þegar við ætlum svo að slá langt neðan við beltisstað heyrist “ég hef aldrei átt við þetta að stríða með öðrum”. Þumalputtareglan í samskiptum um kynlíf er sú að tala um hvað við viljum og hvernig utan svefnherbergisins í stað þess að gera það þegar við erum að stunda kynlíf.
Notaðu líkamstjáningu
Ég vinn við samtalsmeðferð svo auðvitað kann ég að meta samtal. En ég vil líka að við lítum á aðrar aðferðir til samskipta. Líkamstjáning er fyrsta tjáningarformið sem við manneskjur notum, löngu áður en við segjum fyrsta orðið höfum við lært að gera okkur skiljanleg með líkamanum. Það er hægt að auka ánægju sína verulega með því að sýna elskhuganum hvað maður vill án þess að segja orð. Taktu í hönd maka þíns og leiddu höndina þangað sem þú vilt að hún fari.
Alltof margir upplifa að það vanti ástríðu í ástarsambandið, en oftar en ekki er nóg af henni rétt undir yfirborðinu. Flest erum við of sjálfmeðvituð, of hrædd við höfnun eða of þæg og góð til að gera eitthvað í því. Ég hvet fólk sem vill auka lífsgæði sín til þess að taka sambandið og kynlífið föstum tökum. Fullorðið fólk á að taka ábyrgð á sínum parti af sambandinu og hvað það kemur með að borðinu. Sambönd eru ekki auðveld og það þarf skuldbindingu til að viðhalda löngun í sambandi.